„Í gær lentum við í þeim leiðinlega atburði að frændi sótti vitlaust barn,“ stendur í tölvupóstinum sem Soffía Emelía Bragadóttir, leikskólastjóri Mánagarðs við Eggertsgötu í Reykjavík, sendi foreldrum.
Í póstinum kemur fram að það hafi sem betur fer uppgötvast fljótt að um rangt barn hafi verið að ræða. Barninu var „skilað til baka og rétt barn tekið,“ segir Soffía.

Skerpa á reglum í kjölfar atviksins
Skerpt hefur hefur verið á reglum í kjölfar þessa atviks og í tölvupóstinum segir að mikilvægt sé að allir taki höndum saman. Foreldrar þurfa nú að koma inn í garðinn þegar barn er sótt og láta starfsmann vita. Tekið er fram að of algengt sé að foreldrar komi að hliðinu og taki barnið þar.
Þá verður framvegis að láta vita ef einhver annar en foreldri sæki barnið. Sérstaklega sé mikilvægt að láta vita ef einhver sem sjaldan eða aldrei hefur sótt barnið muni sækja það, „svo hægt sé að leiðbeina um að rétt barn sé sótt.“
Soffía Emelía, leikskólastjóri Mánagarðs, vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því.