Innlent

Gular viðvaranir í gildi fyrir vestan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fólk fyrir vestan er beðið um að huga að lausum munum í görðum sínum.
Fólk fyrir vestan er beðið um að huga að lausum munum í görðum sínum.

Gular veðurviðvaranir tóku gildi á Breiðafirði og á Vestfjörðum núna klukkan sex og verða þær í gildi fram að miðnætti. 

Þar er spáð norðaustanátt og þrettán til tuttugu metrum á sekúndu en einnig er búist við mjög hvössum vindhviðum einkum við fjöll. Rigning á köflum og segir Veðurstofan að varasamt sé fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Þá er fólk hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum.

Aukin skriðuhætta

Þá hefur veðurstofan gefið út viðvörun fyrir Strandir, Flateyjarskaga og nyrst á Tröllaskaga þar sem gætir aukinnar skiðuhættu og búist er við vatnavöxtum. Gert er ráð fyrir því að lægðin sem gengur upp að sunnanverðu landinu í dag sjái til þess að úrkoma verði í öllum landshlutum fram á fimmtudag.

Mest uppsöfnuð úrkoma verður þó á Ströndum, annesjum á Norðurlandi og í grennd við jöklana á Suðurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austan og norðaustan 5-13 m/s, en 13-18 á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Rigning með köflum víða um land. Hiti 4 til 12 stig, mildast á Suðurlandi.

Á fimmtudag: Austan og norðaustan 5-13 og dálítil væta, en þurrt að kalla á vestanverðu landinu. Hiti breytist lítið.

Á föstudag: Norðaustan 3-10 og lítilsháttar skúrir, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti frá 2 stigum í innsveitum fyrir norðan, upp í 10 stig syðst.

Á laugardag: Austlæg átt með rigningu, en þurrt norðanlands. Hiti svipaður.

Á sunnudag: Norðaustanátt og rigning, en þurrt um landið suðvestanvert. Hiti 2 til 9 stig, mildast við suðurströndina.

Á mánudag: Norðlæg eða breytileg átt. Lítilsháttar él eða skúrir norðantil á landinu, rigning á Suðausturlandi, en bjartviðri suðvestanlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×