Erlent

Ung­menni leita sér að­stoðar vegna neyslu barna­níðs­efnis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sífellt fleiri ungmenni hafa samband við hjálparþjónustu vegna neyslu barnaníðsefnis.
Sífellt fleiri ungmenni hafa samband við hjálparþjónustu vegna neyslu barnaníðsefnis. Getty

Sérfræðingar og lögregla á Bretlandseyjum segja aukið aðgengi ungmenna að klámi vera að ýta undir skaðlega kynferðislega hegðun, meðal annars neyslu barnaníðsefnis.

Samtökin Lucy Faithfull Foundation, sem vinna að því að koma í veg fyrir barnaníð og starfrækja meðal annars þjónustu fyrir fullorðna sem hafa áhyggjur af kynferðislegum hugsunum um börn, segja ungmennum sem hafa samband hafa fjölgað um 30 prósent og fullorðnum sem hafa samband vegna áhyggja af hegðun ungra einstaklinga hafa fjölgað um 26 prósent.

Rachel Haynes, sérfræðingur hjá samtökunum, segir að frá því að kórónuveirufaraldurinn reið yfir séu mun fleiri táningar að hafa samband við þjónustuna, sem ber yfirskriftina Stop It Now!, en áður. 

Í faraldrinum var farið að bjóða upp á spjallþjónustu á netinu fyrir fullorðna en vegna fjölda fyrirspurna frá ungmennum hefur ný vefsíða fyrir þennan aldurshóp verið opnuð og ber hún heitið Shore. Hún er sú fyrsta sinnar tegundar í Evrópu.

Samkvæmt umfjöllun Guardian hafa sérfræðingar og lögregla verulegar áhyggjur af auknum fjölda ungmenna sem horfa á og/eða deila barnaníðsefni. Frá 2020 hafa tveir þriðjuhlutar þeirra sem hafa samband við Stop It Now! talað um að neyta barnaníðsefnis. Um helmingur þeirra virðist hafa samband eftir að hafa komist til kasta lögreglu en Haynes segir samtök sín vilja ná fyrr til ungmennana.

Hún segir klám eiga þátt í vegferðinni að neyslu barnaníðsefnis; ungmennin verði smám saman ónæm fyrir grófleika klámsins. Þá sé í sumum tilvikum um að ræða að þau séu sjálf að sæta misnotkun af hálfu fullorðinna eða að þau hafi fengið myndir sendar í kynferðislegu spjalli.

„Við erum að glíma við krísuástand og það er drifið af því að ungt fólk hefur nú aðgang að afar grófu klámi sem er að breyta heilastarfsemi þeirra,“ segir Tony Garner, sem leiðir sérhæft teymi hjá lögreglunni sem rannsakar barnaníð.

Hann segir mikilvægt að ungmenni fái vettvang til að ræða málin; oftar en ekki séu þau að gera það í fyrsta sinn eftir að lögreglan bankar upp á hjá þeim.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.