Stutt er síðan staurar fyrir skíðalyftuna í Breiðholti voru fjarlægðir. Standa þeir nú neðst í brekkunni við hliðina á hjólabrettapallinum sem þar má finna.
Kolbrún segir það ótrúlegt að hvergi sé hægt að fá upplýsingar um hver næstu skref hvað varðar staurana eru. Hún gerir ráð fyrir því að þeir hafi verið fjarlægðir vegna fyrirhugaðs vetrargarðs á svæðinu en fátt er um svör hvað gert verður við þá.

„Þeir byrja að rífa niður eitthvað svona án þess að spyrja sig hvort þetta hafi mátt vera áfram, að minnsta kosti þennan vetur. Það er einmitt það sem ég er að spyrja um. 'Eg óska upplýsinga hvort skíðalyfturnar veðri ekki í notkun, verða þær settar aftur upp fyrir veturinn. Eða verður þetta þannig að það verða engar skíðalyftur,“ segir Kolbrún í samtali við fréttastofu.
Hún lagði fram fyrirspurn varðandi málið á síðasta fundi borgarráðs. Var málinu þar vísað til meðferðar hjá menningar-, íþrótta- og tómstundaráði.

„Guð má vita hvenær það kemur svar. Nú ber ég þarna í borðið og sendi þetta inn til að vekja athygli á þessu,“ segir Kolbrún. „Það er mjög margir sem nota lyfturnar, það fyllist allt hérna þegar veður er til en það veit enginn neitt um framhaldið.“