Fótbolti

Stúlkurnar að norðan tóku gleði sína á ný á lands­leiknum

Siggeir Ævarsson skrifar
Stúlkurnar létu fara vel um sig á Laugardalsvelli
Stúlkurnar létu fara vel um sig á Laugardalsvelli Facebook Kolbrún Einarsdóttir

Sérstakir heiðursgestir á landsleik Íslands og Wales í gær voru leikmenn 4. flokks stúlkna í KF/Dalvík en þær fengu skoðunarferð um völlinn og kynningu á undirbúningi landsliðsins fyrir leik.

Forsaga málsins er sú að fyrr í sumar var liðinu meinað að spila til úrslita á Íslandsmótinu. Liðið var skráð til leiks sem B-lið, þar sem forráðamenn liðsins töldu getu­bilið vera mikið í liðinu, fjöldi leikmanna væri ekki mikill og að þær myndu fá verkefni við hæfi.

Þvert á allar væntingar vann liðið sinn riðil í sumar á Íslandsmótinu en í reglu­gerðum KSÍ er það skýrt kveðið á um að B-lið geti ekki tekið þátt í úslitakeppni. Vonbrigði leikmanna liðsins voru eðli málsins samkvæmt mikil og reyndi þjálfari liðsins, Frið­jón Árni Sigur­vins­son, að ræða við KSÍ um undanþágu en kom allsstaðar að lokuðum dyrum.

KF/Dalvík lauk keppni í sumar með sigri á Val, 4-0, en fengu ekki að fara í úrslitakeppnina í kjölfarið. Í gær fengu leikmennirnir þó ákveðna sárabót þegar KSÍ bauð þeim á Laugardalsvöll fyrir leik Íslands og Wales. 

Þar var boðið upp á skoðunarferð um svæðið þar sem stúlkurnar fengu að kynnast undirbúningi og utanumhaldi er fyrir keppnisleiki, kíktu á völlinn fyrir leik og sátu fyrir svörum í blaðamannaherberginu. Svo var boðið til pizzuveislu og að lokum var það landsleikurinn sjálfur þar sem stúlkurnar hvöttu Íslands áfram þegar liðið lagði Wales að velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×