Fótbolti

Gylfi um­kringdur að­dá­endum: „Vin­sælasti Ís­lendingurinn í Lyng­by“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hafði í nægu að snúast eftir leikinn í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson hafði í nægu að snúast eftir leikinn í kvöld. Twitter

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson snéri aftur á knattspyrnuvöllinn er hann kom inn á sem varamaður í 1-1 jafntefli Lyngby gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Gylfi hafði ekki leikið opinberan knattspyrnuleik í 852 daga, eða síðan hann var handtekinn árið 2021, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Hann var leikmaður Everton þegar málið kom upp. Fyrr á þessu ári var mál hans þó látið niður falla og Gylfa var því frjálst að semja við nýtt lið.

Gylfi á að baki langan og farsælan knattspyrnuferil þar sem hann hefur leikið fyrir lið á borð við Swansea, Everton og Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni. Það kom því líklega fáum á óvart að stuðningsmenn Lyngby væru spenntir þegar Gylfi var kynntur til leiks sem nýr leikmaður liðsins í lok síðasta mánaðar.

Lyngby er sannkallað Íslendingalið og er Gylfi einn af fimm Íslendingum hjá liðinu. Freyr Alexandersson þjálfar liðið og þeir Kolbeinn Finnsson, Sævar Atli Magnússon og Andri Lucas Guðjohnsen leika fyrir liðið, ásamt Gylfa.

Þrátt fyrir að hinir Íslendingarnir hafi verið lengur hjá félaginu en Gylfi virðist enginn þeirra þó vera jafn vinsæll hjá félaginu og þessi fyrrum leikmaður Everton. Gylfi var í það minnsta umkringdur aðdáendum eftir leik kvöldsins og greinilega upptekinn við að gefa eiginhandaráritanir þrátt fyrir að það hafi vissulega verið Andri Lucas sem skoraði mark Lyngby, en ekki Gylfi.

„Í dag er hvorki Alexandersson né Guðjohnsen vinsælasti Íslendingurinn í Lyngby,“ ritaði einn stuðningsmaður Lyngby á samfélagsmiðilinn X, sem áður hét Twitter. Með færslunni birti hann mynd af Gylfa með pennan á lofti og múg og margmenni fyrir framan sig sem allir biðu eftir því að fá að hitta leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×