Innlent

Segir flökku­­sögu um sig sýna hvert um­­ræðan sé komin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segist döpur yfir umræðunni undanfarna daga um hinsegin samfélagið.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segist döpur yfir umræðunni undanfarna daga um hinsegin samfélagið. Vísir/Vilhelm

Hanna Katrín Frið­riks­son, þing­maður Við­reisnar, segir á­rásir gegn með­limum hin­segin sam­fé­lagsins sem borið hefur á í um­ræðunni undan­farna viku, hafa skorið sig í hjartað. Hún segist sjálf hafa verið við­fangs­efni falskra flökku­sagna um kyn­ferðis­lega mis­notkun barna og segir Ís­lendinga þurfa að á­kveða hvernig sam­fé­lag sitt eigi að vera.

Þetta kom fram í Sprengi­sandi á Bylgjunni þar sem Hanna var gestur. Há­vær gagn­rýni og upp­lýsinga­ó­reiða hefur ein­kennt um­ræðu um kyn­fræðslu grunn­skóla­barna síðustu daga þar sem Sam­tökin '78 og hin­segin fræðsla þeirra hafa meðal annars verið dregin inn í um­ræðuna.

Skelin þunn

Hanna segir stöðuna dapra og rekur um­ræðuna meðal annars til Evrópu og Banda­ríkjanna þar sem spjótunum sé í auknum mæli beint gegn mann­réttindum trans fólks. Hanna segist hafa komið af sam­stöðu­fundi hin­segin fólks í gær.

„Og það skar mig í hjartað að tala við fólk á mínum aldri sem fór einna verst út úr bar­áttunni, for­dómunum og hatrinu fyrir ein­hverjum þrjá­tíu árum síðan, náði sér kannski aldrei alveg en náði að halda haus og komast standandi út úr því, er eigin­lega að bugast aftur. Hún er svo þunn skelin. Þetta er svo ævin­týra­lega ljótt.“

Á mörkunum að geta hlegið

„Bara svo að þú hafir ein­hverja mynd af klikkuninni sem er í gangi, þá er það í dreifingu á sam­fé­lags­miðlum að ég og Ragn­hildur konan mín séum hlut­hafar í stóru heil­brigðis­fyrir­tæki á Ís­landi sem selji lyf sem ætlað er að auð­velda kyn­ferðis­lega mis­notkun á börnum og að af þessum við­skiptum sé ég orðin svo rík, að ég sé að stunda peninga­þvætti.“

Hanna Katrín segir tvennt rétt í því, hún hafi einu sinni unnið hjá heil­brigðis­fyrir­tæki og síðan hafi hún fyrir ári síðan birt Face­book færslu um það að hún hafi fengið at­huga­semd á flug­velli þegar hún hugðist taka út 50 evrur í gjald­eyri eftir að hún hafi sagst vera stjórn­mála­maður. Hanna Katrín var framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Icepharma frá 2012 til 2016.

„Bara til þess að sýna á hvaða stigi þetta er og ég get hlegið að þessu,“ segir Hanna Katrín. 

Það er rétt á mörkunum?

„Það er rétt á mörkunum nefni­lega og ég er viss um að ég gæti elt þetta uppi og gert eitt­hvað úr því, af því að við erum jú með lög­gjöf gegn svona og fyrir stjórn­mála­mann þá er þetta ekkert grín heldur að fleyta svona sögu. En þetta sýnir bara, að ég veit það ekki, við verðum að staldra við og reyna að­eins að átta okkur á því á hvaða veg­ferð við erum.“

Snúist um við­nám lýð­ræðisins

Hanna Katrín segir um­ræðuna nú um minni­hluta­hópa í hin­segin sam­fé­laginu snúast um við­náms­þrótt lýð­ræðisins. Ís­lendingar verði að fara að átta sig á þessu.

„Þetta er ekki eitt­hvað sem við getum bara grátið yfir ein­mitt, eða hlegið að eða hneykslast á eða barist gegn í litlum brotum út um allt sam­fé­lagið. Við verðum að fara að á­kveða hvernig sam­fé­lag við ætlum að vera hérna. Við ætlum ekki að vera sam­fé­lag sem stýrist af fals­fréttum og skipu­lögðum á­róðurs­her­ferðum gegn litlum ein­staka hópum og búa þannig til far­veginn fyrir öfga­öfl. Það er ekki það sem ís­lenskt sam­fé­lag ætlar að vera.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.