Fréttir

Ís­lendingar að renna út á tíma í málum aldraðra

Magnús Jochum Pálsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns, segir Íslendinga vera að renna út á tíma í málefnum aldraðra.
Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns, segir Íslendinga vera að renna út á tíma í málefnum aldraðra. Stöð 2

Fimm hundruð eru á biðlista eftir hjúkrunarrými á landinu og byggja þarf ígildi níu hjúkrunarheimila bara í Reykjavík til að mæta gríðarlegri fjölgun í elstu hópum. Forstjóri Sóltún segir að þjóðin sé að renna út á tíma í málum aldraðra.

Íslenska þjóðin eldist á ógnarhraða og á næstu fimmtán árum gæti fólki á aldrinum 80 til 89 ára fjölgað um 85 prósent. Sá hópur færi úr því að vera um ellefu þúsund manns í dag yfir í að vera um tuttugu þúsund árið 2038.  

Bara í Reykjavík vantar um 700 hjúkrunarrými, þetta er ígildi um átta til níu heilla hjúkrunarheimila.

Á næstu fimmtán árum er talið að fólki á aldrinum 80 til 89 ára gæti fjölgað um 85 prósent. Eitt af stærstu viðfangsefnum næstu ára er hvernig eigi að mæta þeirri fjölgun.Stöð 2

Fimm hundruð á biðlista

„Það eru fimm hundruð manns á landinu á biðlista eftir hjúkrunarrými í dag. Ég held að það séu um 250, síðast þegar ég gáði, á biðlista eftir hjúkrunarrými bara á höfuðborgarsvæðinu. Við erum kannski aðeins runnin út á tíma með þetta,“ sagði Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns.

„Eitt nýtt hjúkrunarheimili kostar svona fimm-sex milljarða. Sú uppbygging þarf að vera hraðari,“ sagði hún einnig.

Næstu hjúkrunarrými sem bætast við á höfuðborgarsvæðinu eru einmitt á Sóltúni, sextíu talsins og verða tilbúin eftir eitt til tvö ár. Slík uppbygging á þó vissulega til að dragast á langinn.

Vorið 2021 undirrituðu heilbrigðisráðherra og borgarstjóri samkomulag um að reisa hjúkrunarheimili fyrir allt að 144 íbúa á lóð við Mosaveg í Reykjavík á móti Borgarholtsskóla. 

Í samkomulaginu var talað um að undirbúningur framkvæmda myndi hefjast seinna það sama ár og að hjúkrunarheimilið yrði tilbúið til notkunar. En nú er langt liðið á 2023 og enn hefur ekkert gerst á lóðinni.

Íslendingar þurfi að spýta í lófana

Martin Green, framkvæmdastjóri Care England, stærstu atvinnugreinasamtaka í einkarekinni umönnun aldraðra á Bretlandi, segir Íslendinga verða að spýta í lófana í málaflokknum.

„Ég held að það verði líka vandamál, hvort þið hafið efni á að þjóna öllum þegar við lítum á aukna þörf. Ísland er ekkert öðruvísi en hin G20-ríkin. Það er aukin þörf hjá okkur öllum og við finnum að það eru minni fjármunir hjá stjórnvöldum,“ sagði Green við fréttastofu.

Martin Green segir Íslendinga í sama vanda og önnur G20-ríki.Stöð 2


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×