Innlent

Fúlum vegna göngugatna fækkar um helming

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Erlendir ferðamenn hafa fjölmennt í miðborgina í sumar. Fjöldi þeirra hefur aldrei verið meiri eftir ferðahléð sem varð í kórónuveirufaraldrinum.
Erlendir ferðamenn hafa fjölmennt í miðborgina í sumar. Fjöldi þeirra hefur aldrei verið meiri eftir ferðahléð sem varð í kórónuveirufaraldrinum. Vísir/Vilhelm

Tæplega þrír af hverjum fjórum Reykvíkingum eru jákvæðir í garð göngugatna í miðborginni. Neikvæðum hefur fækkað úr tuttugu prósent borgarbúa í níu prósent á fjórum árum eða um rúman helming. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu fyrir Reykjavíkurborg.

Sem fyrr eru þau jákvæðust sem heimsækja göngugötur oftast og búa næst þeim. Engu að síður eykst jákvæðni í öllum hverfum. Eftir því sem fólk er yngra er það jákvæðara, sömuleiðis eru konur með aðeins jákvæðara viðhorf en karlar og loks eftir því sem menntun eykst er fólk jákvæðara.

Þeim fjölgar sem finnst svæðið of lítið eða 38% nú miðað við 19% árið 2019. Þeim hefur fækkað töluvert sem finnst svæðið of stórt en 19% telja svo vera nú miðað við 28% árið 2019.

Viðhorf fólks til áhrifa göngugatna á mannlíf er nokkuð stöðugt en síðustu ár telja í kringum 70% aðspurðra að göngugötur hafi jákvæð áhrif á mannlíf. Rúmlega helmingur telur þær hafa jákvæð áhrif á verslun og tveir af hverjum þremur telja þær hafa jákvæð áhrif á veitinga- og matsölustaði í miðborginni.

Könnunin var lögð fyrir Reykvíkinga í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 17. - 29. ágúst 2023 voru svarendur 979 talsins. Svarendur eru 18 ára og eldri í Reykjavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×