Erlent

Hundruðum stelpna gert að skipta um föt eftir bann á skó­síðum kyrtlum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Bannið var kynnt í síðustu viku og tók gildi í gær, á fyrsta skóladegi annarinnar í Frakklandi. 
Bannið var kynnt í síðustu viku og tók gildi í gær, á fyrsta skóladegi annarinnar í Frakklandi.  AP/Elaine Ganley

Nærri þrjú hunndruð franskir nemendur hafa verið beðnir um að skipta um klæðnað eftir að skósíðir kyrtlar voru bannaðir í öllum ríkisreknum skólum landsins í síðustu viku. Bannið tók gildi í gær.

Gabriel Attal, menntamálaráðherra Frakklands greindi frá banninu í síðustu viku. Samkvæmt opinberum tölum hafa 298 stúlkur mætt í skólann sinn klæddar í skósíðan kyrtil síðan í gær. Flestar þeirra eru fimmtán ára eða eldri. 

Þá segir að 67 þeirra stelpna hafi neitað að skipta um klæðnað og í kjölfarið verið sendar heim. Ef ekki næst að semja við fjölskyldur þeirra stelpna hljóta þær brottrekstur frá skólanum sínum.

„Þegar þú gengur inn í skólastofu átt þú ekki að séð hvaða trúarbrögð nemendur iðka bara með því að horfa á þá,“ sagði Attal í samtali við TF1 þegar greint var frá banninu.

Frönsk yfirvöld trúa því að bannið hafi nú verið samþykkt af þjóðinni ef marka má tölur yfir hve margir hafa hlýtt nýsettu lögunum en fimm milljónir múslima eru búsettir í landinu. 

Frakkar bönnuðu nemendum að klæðast höfuðslæðum árið 2004 og að auki eru trúarleg tákn bönnuð í skólum og opinberum byggingum. Auk kyrtla og höfuðslæða eru önnur trúartákn að auki bönnuð í opinberum skólum Frakklands, svo sem kollhúfur gyðinga og krossar kristinna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×