Fótbolti

Landsliðsmaður Panama skotinn til bana

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gilberto Hernández var skotinn til bana í heimalandi sínu í gær.
Gilberto Hernández var skotinn til bana í heimalandi sínu í gær. Mexsport

Gilberto Hernández, landsliðsmaður Panama, var í gær skotinn til bana í borginni Colón í heimalandi sínu. Hann var 26 ára gamall þegar hann lést.

Hernández var staddur með hópi fólks í byggingu þegar tveir menn komu með leigubíl og hófu skothríð. Hernandéz lést í skothríðinni og sjö aðrir slösuðust. Árásarmennirnir neyddu leigubílstjórann til að keyra sig að byggingunni og flúðu svo af vettvangi.

Ekki er vitað hvort Hernández, sem var leikmaður Club Atlético Independiente í heimalandi sínu, hafi verið skotmark árásarinnar, eða hver ástæða hennar var. Þó er talið að hún tengist deilum glæpagengja í borginni.

Morðtíðni í borginni hefur aukist verulega í borginni undanfarna mánuði þar sem tvö glæpagengi berjast um yfirráð yfir smyglleiðum. Alls hafa yfir fimmtíu manns verið myrtir í Colón það sem af er ári, en um fjörutíu þúsund manns búa í borginni.

Hernández gekk í raðir Club Atlético Independiente fyrir síðasta tímabil og lék 32 deildarleiki fyrir liðið þar sem hann skoraði sjö mörk. Hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir Panama í mars á þessu ári í vináttuleik gegn Gvatemala, en alls urðu landsleikirnir aðeins tveir talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×