Fótbolti

Ramos á leið heim til Sevilla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sergio Ramos í leik með Sevilla.
Sergio Ramos í leik með Sevilla. EPA/JULIO MUNOZ

Sergio Ramos hefur samþykkt að ganga í raðir uppeldisfélagsins Sevilla, átján árum eftir að hann yfirgaf það.

Félagaskiptagúrúinn Fabrizio Romano greinir frá því að Ramos og Sevilla hafi náð munnlegu samkomulagi um að hann fari til félagsins.

Ramos hefur verið án félags síðan samningur hans við Paris Saint-Germain rann út eftir síðasta tímabil. Síðan þá hefur hann meðal annars verið orðaður við félög í Tyrklandi og Sádi-Arabíu.

Nú virðist allt benda til þess að Ramos snúi aftur til Sevilla sem hann ólst upp hjá og lék með þar til Real Madrid keypti hann sumarið 2005. Ramos lék fimmtíu leiki fyrir Sevilla og skoraði þrjú mörk.

Ramos lék með Real Madrid í sextán ár og vann allt sem hægt var að vinna með félaginu, meðal annars Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum og spænska meistaratitilinn fimm sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×