Innlent

Biðu í vélinni í sex tíma vegna veðurs

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Flugvél WizzAir sat föst með farþega í kvöld í um sex tíma.
Flugvél WizzAir sat föst með farþega í kvöld í um sex tíma. vísir/vilhelm

Farþegar í tveimur flugvélum sátu fastir á Keflavíkurflugvelli í hátt í sex tíma í kvöld vegna óveðurs.

Einn farþeganna sem lenti í þessari leiðinlegu bið er Rakel Sveinsdóttir, blaðamaður á Vísi. Flug hennar með WizzAir frá Mílanó lenti klukkan hálf sex í Keflavík en farþegar gengu frá borði upp úr klukkan hálf tólf í kvöld. 

„Það var allt rólegt í vélinni okkar. Þetta voru flest allt útlendingar, Íslendingarnir hefðu líklega frekar misst sig. En þetta var bið sem var lengri en flugið sjálft,“ segir Rakel í samtali við Vísi.

„Það var allt búið í vélinni, búið að gefa allt,“ segir Rakel og hlær.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir að vindhraði hafi farið yfir fimmtíu hnúta og því hafi landgangarnir verið teknir úr notkun.

„Í einhverjum tilvikum er hægt að nota stigabíla en bílarnir eru reknir af flugfélögunum. Frameftir kvöldi var hægt að nota bílana en frá níu þurfti að bíða,“ segir Guðjón í samtali við Vísi.

Neyðaraðgerðarfundur hafi verið haldinn með flugvélögum þar sem upplýst var um veðrið og farið yfir stöðuna. 

„Flugfélögin taka síðan sínar ákvarðanir, um seinkun eða aflýsingu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×