Fótbolti

Ætlar að halda áfram að verja sig „þar til sannleikurinn kemur í ljós“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rubiales stendur enn fastur á sínu.
Rubiales stendur enn fastur á sínu. Vísir/Getty

Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, ætlar að halda áfram að verja sig „þar til sannleikurinn kemur í ljós.“

Rubiales hefur verið harðlega gagnrýndur í kjölfar HM kvenna í knattspyrnu þar sem hann smellti rimbingskossi á Jenni Hermoso gegn hennar vilja eftir sigur spænska liðsins. 

Hann var dæmdur í 90 daga bann frá afskiptum af knattspyrnu af FIFA, en þrátt fyrir það hefur forsetinn harðneitað að segja af sér.

Rubiales hefur nú tjáð sig opinberlega í fyrsta sinn síðan 25. ágúst. Hann viðurkennir að hafa gert mistök, en segist ætla að halda áfram að verja sig.

„Ég mun halda áfram að verja mig þar til sannleikurinn kemur í ljós,“ sagði Rubiales.

„Þann 20. ágúst gerði ég augljós mistök sem ég sé innilega eftir,“ hélt Rubiales áfram, en hann sást grípa um klofið á sér á VIP-svæði vallarins með Letiziu Spánardrottningu og 16 ára dóttur hennar viðstaddar.

„Ég er búinn að læra það að alveg sama hversu mikil gleðin er og hversu sterkar tilfinningarnar eru, jafnvel eftir að liðið þitt verður heimsmeistari, þá eiga leiðtogar íþróttahreyfinga að vera fyrirmyndir í hegðun sinni. Ég var það ekki.“

„Þrátt fyrir að upplýsingum um málið hafi verið beitt hagræðingu, lygum og ritskoðun, þá finnur sannleikurinn alltaf leið upp á yfirborðið. Og það er þess vegna sem ég endurtek að ég treysti því að réttlætinu verði fullnægt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×