Innlent

Komum ó­sjúkra­tryggðra fjölgað um 50 prósent frá því í fyrra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Komum á Sjúkrahúsið á Akureyri hefur fjölgað nokkuð.
Komum á Sjúkrahúsið á Akureyri hefur fjölgað nokkuð. Vísir/Vilhelm

Komum ósjúkratryggðra einstaklinga á Sjúkrahúsið á Akureyri hefur fjölgað um 50 prósent frá fyrra ári, það sem af er ári. 512 hafa sótt þjónustu spítalans í ár en fjöldinn var 331 í fyrra.

Frá þessu er greint í starfsemistölum SAk fyrir janúar - júlí 2023.

Alls sótti 471 á bráðadeild spítalans fyrstu sjö mánuði ársins, 67 voru lagðir inn á legudeild og 62 sóttu þjónustu á göngudeild. Innlagnirnar voru langflestar í júlí, eða 31, en 16 í bæði maí og júní.

Ríkisfang hinna ósjúkratryggðu var óþekkt í 93 tilvikum en í 65 tilvikum var um að ræða Bandaríkjamenn, 62 tilvikum Þjóðverja, 55 tilvikum Íslendinga og 32 tilvikum Pólverja.

Fæðingar á sjúkrahúsinu voru 224, sem er 10 prósent fækkun frá fyrra ári. Alls voru 1.497 skurðaðgerðir framkvæmdar, samanborið við 1.402 í fyrra. Þá sóttu 8.028 bráðamóttökuna í 12.924 komum það sem af er ári en 7.425 í 11.796 komum á sama tímabili í fyrra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×