Enski boltinn

Jóhann Berg og fé­lagar á­fram í enska deildar­bikarnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhann Berg og félagar spiluðu í gulu í kvöld.
Jóhann Berg og félagar spiluðu í gulu í kvöld. Twitter@BurnleyOfficial

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley þegar liðið vann nauman 1-0 útisigur á Nottingham Forest í enska deildarbikarnum í kvöld. Þá vann Chelsea 2-1 sigur á AFC Wimbledon.

Jóhann Berg spilaði allan leikinn en lengi vel stefndi allt í að leikurinn myndi enda með markalausu jafntefli. Gestirnir frá Burnley voru sterkari og skoruðu það sem segja má að hafi verðskuldað sigurmark þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma. Zeki Amdouni með markið eftir sendingu Josh Brownhill og fyrsti sigur Burnley á tímabilinu staðreynd.

Chelsea lenti undir gegn Wimbledon í kvöld en heimamenn komu til baka með mörkum frá Noni Madueke og varamanninum Enzo Fernandez.

Þá virtist sem hremmingar Everton myndu halda áfram en liðið var lengi vel 1-0 undir gegn Doncaster Rovers, sem spilar í ensku D-deildinni, í kvöld. Everton hefur byrjað tímabilið í ensku úrvalsdeildinni skelfilega og ekki enn skorað deildarmark eftir þrjá leiki.

Það fór því eflaust um stuðningsfólk Everton þegar heimamenn í Doncaster komust yfir undir lok fyrri hálfleiks. Það var svo á 73. mínútu sem varamaðurinn Beto skoraði fyrsta mark Everton á tímabilinu í sínum fyrsta leik.

Arnaut Danjuma tryggði svo Everton áfram í næstu umferð deildarbikarsins með sigurmarki á 88. mínútu, lokatölur 1-2.

Önnur úrslit voru þau að Blackburn Rovers vann Harrogate 8-0 og Lincoln City lagði Sheffield United í vítaspyrnukeppni. Arnór Sigurðsson lék ekki með Blackburn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×