Fótbolti

Pavard mættur til Inter

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pavard eftir úrslitaleik HM í Katar.
Pavard eftir úrslitaleik HM í Katar. Shaun Botterill/Getty Images

Benjamin Pavard er genginn í raðir Inter Milan frá Þýskalandsmeisturum Bayern München. Talið er að kaupverið sé um 30 milljónir evra eða tæpir 4,3 milljarðar íslenskra króna.

Hinn 27 ára gamli Pavard getur spilað sem hægri bakvörður eða miðvörður og hefur verið orðaður frá Bayern í nær allt sumar þar sem hann átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Bayern. Hann var um tíma orðaður við Manchester United en nú hefur Inter hreppt hnossið.

Pavard spilaði stóra rullu þegar Frakkland varð heimsmeistari sumarið 2018 sem og þegar liðið nældi í silfur á HM í Katar í desember.

Þrátt fyrir að hafa spilað bakvörð undanfarin ár er talið að Pavard vilji færa sig inn í miðja vörnina og eru því allar líkur á að hann spili hægra megin í þriggja manna vörn Inter á komandi tímabili.

Inter er með sex stig að loknum tveimur leikjum í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×