Erlent

Rann­sókn hætt á meintum brotum Ramm­stein söngvarans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ásakanir á hendur Till Lindemann hrönnuðust upp í maí. Enginn þeirra sem bar á hann ásakanir vildi tjá sig um málið við embætti saksóknara í Berlín.
Ásakanir á hendur Till Lindemann hrönnuðust upp í maí. Enginn þeirra sem bar á hann ásakanir vildi tjá sig um málið við embætti saksóknara í Berlín. EPA-EFE/CLEMENS BILAN

Rann­sókn á meintum kyn­ferðis­brotum Till Lindemann, söngvara þýsku hljóm­sveitarinnar Ramm­stein, hefur verið hætt af sak­sóknara í Þýska­landi. Á­stæðan er að ekki fundust nægi­lega mikil sönnunar­gögn fyrir hinum meintu brotum og þá vildi enginn stíga fram sem vitni.

Greint var frá því í júní síðast­liðnum að sak­sóknari í Ber­lín hefði opnað rann­sókn á hendur Lindemann. Tugir kvenna stigu fram í sumar og sökuðu Lindemann og starfs­lið hans um kerfis­bundna tælingu og byrlun.

Breski miðillinn Guar­dian hefur eftir em­bætti sak­sóknara að við rann­sókn málsins hefðu engin sönnunar­gögn fundist. Þá hefði vitnisburður reynst ótrúverðugur auk þess sem meintir brota­þolar sem stigu fram á Reddit hafi ekki viljað vera vitni í málinu hjá embætti saksóknarans.

Í maí síðast­liðnum steig Shelby Lynn, norður-írskur að­dáandi sveitarinnar, fyrst fram með á­sakanir á hendur söngvaranum. Hún sagðist telja að söngvarinn hefði byrlað sér þegar hann bauð henni bak­sviðs, fyrir tón­leika Ramm­stein í Vil­níus, höfuð­borg Litáen í maí. Till­man hefði auk þess brugðist reiður við því þegar hún hafi neitað að sofa hjá honum.

Í umfjöllun miðilsins er haft eftir saksóknara að ásakanir Shelby hafi þegar á hólminn er komið reynst óskýrar og að í ljós hafi komið að Shelby hafi sjálf ekki orðið vitni að neinu saknæmu.

Í kjöl­far þess að Shelby steig fram lýstu tugir kvenna svipaðri sögu á Reddit síðu þunga­rokks­hljóm­sveitarinnar. Virtust lýsingarnar margar vera keim­líkar, eða alveg eins, að því er fram kemur í um­fjöllun Guar­dian.

Sjálfur hefur Till Lindemann stað­fast­lega neitað sök og sveitin gefið frá sér yfir­lýsingu vegna málsins. Í yfir­lýsingunni sagði að sveitin þætti öryggi að­dá­enda sinna á tón­leikum sveitarinnar vera það sem öllu máli skiptir. Á­sökunum væri ekki tekið af létt­úð.

Málið hefur vakið gríðar­lega at­hygli og meðal annars verið rætt í þýska þinginu, þar sem þing­menn hafa lagt fram fyrir­spurnir um hvar málið hafi verið statt hjá sak­sóknara, sem varðist öllum fréttum þar til nú. Þá hefur bóka­út­gefandinn KiWi slitið út­gáfu­samningi sínum við Lindemann vegna málsins, en for­lagið hafði um ára­raðir gefið út ljóða­bækur hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×