Fótbolti

FIFA setur Rubiales í bann

Sólrún Dögg Jósefsdóttir og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Hegðun forsetans eftir sigurleik Spánar á HM kvenna hefur vakið talsverða athygli. 
Hegðun forsetans eftir sigurleik Spánar á HM kvenna hefur vakið talsverða athygli.  Getty

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur ákveðið að setja Luis Rubiales, forseta Knattspyrnusambands Spánar, í tímabundið bann frá afskiptum af knattspyrnu.

Spænskir miðlar greina frá þessu. Þar segir að samkvæmt tilkynningu frá FIFA sé Rubiales rekinn frá „öllum knattspyrnutengdum störfum á innanlands- og alþjóðvettvangi.“ Þá segir einnig að bannið taki gildi í dag og standi næstu níutíu daga, og jafnframt jafn lengi og málsmeðferð hans stendur yfir. 

Óviðeigandi hegðun Ru­bi­a­les eftir sigur Spánar í úrslitaleik HM hefur vakið mikla athygli og hefur verið kallað eftir því að hann taki ábyrgð á gjörðum sínum úr ýmsum áttum. 

Atvikið sem kom öllu af stað átti sér stað í fagnaðarlátum spænska kvennalandsliðsins eftir sigur í úrslitaleik HM. Rubiales þröngvaði rembingskossi beint á varir Jennifer Hermoso, fyrirliða landsliðsins, óumbeðinn og án samþykkis.

Sambandið stendur með Rubiales

Fyrr í dag var greint frá því að spænska knattspyrnusambandið stæði að baki Rubiales, og sakaði Hermoso jafnframt um lygar. 

Hermoso sagði í yfirlýsingu að kossinn umræddi hefði verið algerlega án hennar samþykkis. Spænska knattspyrnusambandið brást hart við snemma í morgun, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem það styður formanninn, segir hann hafa sagt satt að öllu leyti og birtir fjórar myndir því til stuðnings. 

Fjöldi knattspyrnufólks á Spáni hefur gagnrýnt Rubiales harðlega og sagst vilja hann burt, ellegar muni það ekki gefa kost á sér til að spila með landsliðinu. 

Sambandið hefur á móti sagt að ekki sé í boði að neita að spila fyrir landsliðið. 


Tengdar fréttir

Sakar Jenni Hermoso um lygar og kærir hana

Spænska knattspyrnusambandið ver formann sinn með kjafti og klóm. Það segir Jenni Hermoso fara með ósannindi og bendir á að fótboltakonur á Spáni geti ekki neitað að spila með landsliðinu séu þær valdar í liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×