Erlent

Flug­riti flug­vélar Prígó­sjíns fundinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tveir menn bera líkpoka burt frá flugvélaflaki flugvélarinnar sem fórst nálægt þorpinu Kuzghenkino á miðvikudag.
Tveir menn bera líkpoka burt frá flugvélaflaki flugvélarinnar sem fórst nálægt þorpinu Kuzghenkino á miðvikudag. AP

Flugriti flugvélarinnar sem fórst nærri Moskvu á miðvikudag hefur verið fundinn auk líkamsleifa þeirra tíu sem voru um borð. Jevgení Prígosjín, leiðtogi Wagner-hópsins, var á farþegalista flugvélarinnar auk undirmanna sinna og áhafnarmeðlima flugvélarinnar.

„Núna er verið að gera sameindaerfðafræðileg próf,“ sagði rannsakandi á vettvangi en þau eru framkvæmd til að bera kennsl á líkin.

Mynd úr myndbandi sem var tekið skömmu eftir að flugvélin hrapaði til jarðar.AP

Ýmsar getgátur eru uppi um hvernig flugvélin fórst og hafa Rússar verið sakaðir um að hafa skotið flugvélina niður í hefndaraðgerð gegn Prígosjín. Dmítrí Peskov, talsmaður Pútíns, þverneitaði þeim ásökunum, á blaðamannafundi í dag.

„Núna eru auðvitað ýmsar vangaveltur um flugslysið og hörmulegan dauða farþega flugvélarinnar, þar á meðal Jevgenís Prígósjíns,“ sagði Peskov á blaðamannafundinum. „Í Vestrinu eru þær vangaveltur auðvitað settar fram frá ákveðnu sjónarhorni en það er allt haugalygi.“

„Við höfum ekki mikið af staðreyndum á þessu stigi málsins. Staðreyndirnar þarf að skýra í opinberri rannsókn sem er nú verið að framkvæma,“ sagði hann einnig.

Prígósjín og hægri hönd hans, Dmítrí Útkin, voru á farþegalista flugvélarinnar auk fimm Wagner-manna og þriggja áhafnarmeðlima. Peskov vildi hins vegar ekki svara því hvort búið væri að staðfesta að Prígosjín hefði verið um borð í flugvélinni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×