Fótbolti

Öruggur sigur Víkinga og Besta deildin í sjónmáli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Víkingskonur hafa átt frábært tímabil.
Víkingskonur hafa átt frábært tímabil. Vísir/Hulda Margrét

Víkingur vann í kvöld öruggan 5-1 sigur á fallliði KR í Lengjudeild kvenna. Víkingur gæti tryggt sér sæti í Bestu deildinni á morgun tapi HK gegn Grindavík.

Víkingskonur hafa átt frábært tímabil nú í sumar. Þær urðu á dögunum Mjólkurbikarmeistarar eftir sigur á Breiðablik í úrslitaleik og eru með þægilega forystu á toppi Lengjudeildarinnar.

Í kvöld mætti liðið KR sem þegar er fallið úr Lengjudeildinni. Sigur Víkings í kvöld var afskaplega sannfærandi. Liðið komst í 5-0 strax í fyrri hálfleik og þó KR hafi minnkað muninn í lokin skipti það litlu máli.

Nadia Atladóttir skoraði tvö mörk fyrir Víking í kvöld og þær Selma Dögg Björgvinsdóttir, Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir og Hulda Ösp Ágústsdóttir hin þrjú. Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir skoraði mark KR.

Víkingur er nú með 36 stig á toppi Lengjudeildarinnar, sjö stigum á undan Fylki, sem á tvo leiki til góða, sem og HK en Kópavogskonur hafa leikið einum leik minna en Víkingur.

HK á leik á morgun gegn Grindavík í Kórnum og tapi þær þeim leik er sæti Víkings í Bestu deild á næsta tímabili tryggt. Víkingur og Fylkir mætast síðan í toppslag deildarinnar á þriðjudag í næstu viku og þá munu Víkingskonur eiga möguleika á að tryggja sér Bestu deildar sætið ef það verður ekki þegar í höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×