Erlent

Fjar­vera Xi vekur at­hygli og spurningar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Xi er staddur í Suður-Afríku en mætti ekki til að flytja opnunarræðu sína.
Xi er staddur í Suður-Afríku en mætti ekki til að flytja opnunarræðu sína. AP

Það hefur vakið nokkra athygli að Xi Jinping, forseti Kína, var fjarri góðu gamni þegar hann átti að flytja ræðu á fundi leiðtoga BRICS-ríkjanna í Suður-Afríku í gær. Forsetinn var hvergi sjáanlegur en ræða hans flutt af viðskiptaráðherranum Wang Wentao.

Xi mætti til Jóhannesarborgar á mánudagskvöld og fundaði með Cyril Ramaphosa, forseta Suður-Afríku, í gærmorgun. Þá mætti hann til kvöldverðar í gærkvöldi, eftir ræðuhöldin.

Engar skýringar hafa verið gefnar á því hvers vegna Xi flutti ekki ræðuna sjálfur en svo virðist sem ákvörðunin um að láta Wang flytja ræðuna hafi verið tekin á síðustu stundu þar sem færslur á opinberum samfélagsmiðlum Kína gerðu ráð fyrir að forsetinn hefði flutt hana.

Menn velta því nú fyrir sér hvort eitthvað dularfullt búi að baki eða hvort Xi hafi veikst skyndilega.

Bill Bishop, höfundur fréttaritsins Sinocism, bendir á að lítið hafi farið fyrir Xi í ágúst og að ákvörðunin um að flytja ekki ræðuna sjálfur sé stórundarleg. China Global South Project segir fjarveru Xi afar sérstaka, þar sem leiðtogar Kína séu ekki vanir að stíga út fyrir rammann á þaulskipulögðum viðburðum sem þessum.

Þá hefur athygli verið vakin á því að um sé að ræða aðra eftirtektarverða fjarveru kínversks embættismanns á skömmum tíma en Qin Gang, nú fyrrverandi utanríkisráðherra Kína, var ekki viðstaddur fund utanríkisráðherra BRICS-ríkjanna í júlí.

Qin hefur raunar ekki sést opinberlega í marga mánuði og var skipt út á dögunum.

Um það bil 40 prósent jarðarbúa búa í BRICS-ríkjunum; Brasilíu, Rússlandi, Indlandi, Kína og Suður-Afríku. Leiðtogar allra ríkjanna eru á fundinum sem nú stendur yfir, nema Vladimir Pútín Rússlandsforseti. Hann situr heima vegna alþjóðlegrar handtökuskipunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×