Erlent

Fast­eigna­mógúll nýr for­sætis­ráð­herra Taí­lands

Kjartan Kjartansson skrifar
Srettha Thavisin nýr forsætisráðherra Taílands. Eftir að hann var tilnefndur forsætisráðherraefni Pheu Thai var hann sakaður um skattsvik og peningaþvætti.
Srettha Thavisin nýr forsætisráðherra Taílands. Eftir að hann var tilnefndur forsætisráðherraefni Pheu Thai var hann sakaður um skattsvik og peningaþvætti. AP/Wason Wanichakorn

Bundinn var enda á upplausnarástand sem ríkt hefur í taílenskum stjórnmálum frá þingkosningum í maí þegar ný ríkisstjórn undir forsæti Srettha Thavisin, þekkts fasteignamógúls, var staðfest í dag. Flokknum sem fékk flest atkvæði í kosningunum var haldið frá ríkisstjórn.

Stjórn ellefu flokka, þar á meðal tveggja flokka sem tengjast hernum og Prayuth Chan-ocha, var samþykkt með 482 atkvæðum af 727 á taílenska þinginu í dag. Srettha verður forsætisráðherra fyrir hönd Pheu Thai-flokksins.

Gagnrýnendur stjórnarsamstarfsins segja það svik við kjósendur þar sem Framsóknarflokkurinn, sem hlaut flest atkvæði í kosningunum, á ekki sæti í henni. Leiðtogar Pheu Thai segja samstarfið nauðsynlegt til þess að leysa úr pattstöðunni sem ríkti. Áhugi Framsóknarflokksins á því að breyta umdeildum lögum sem banna ærumeiðingar í garð konungsfjölskyldunnar hafi gert hann óstjórntækan.

Srettha er 61 árs gamall nýgræðingur í stjórnmálum en vel þekktur athafnamaður. Aðeins níu mánuðir eru frá því að hann gekk til liðs við Pheu Thai sem hefur það á stefnuskránni að draga úr ójöfnuði í landinu. Srettha hætti sem forstjóri fjölskyldufyrirtækis síns fyrr á þessu ári og lét dóttur sinni eftir öll hlutabréf í því, að sögn AP-fréttastofunnar.

Samsteypustjórninni er ætlað að koma hjólum efnahagslífsins í gang, hækka lágmarkslaun og binda enda á herskyldu.

Pheau Thai tengist Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra landsins sem herinn steypti af stóli árið 2006. Thaksin kom aftur til Taílands í morgun eftir margra ára útlegð og hóf afplánun á átta ára fangelsisdómi sem hann hlaut í spillingarmáli.

Vangaveltur eru uppi um að Thaksin hafi valið að snúa aftur nú þegar stjórnmálaflokkur hans er við völd í von um að fá fangelsisdóm sinn mildaðan. Thaksin vísar því á bug.


Tengdar fréttir

Sneri aftur eftir fimm­tán ára út­legð og fór beint í steininn

Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, sneri aftur til landsins eftir að hafa varið síðustu fimmtán árum í sjálfskipaðri útlegð. Eftir að hafa verið fagnað sem þjóðhetju á flugvelli við komu var hann færður í hæstarétt Taílands þar sem hann var dæmdur í átta ára fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×