Í Dagmálum Morgunblaðsins var greint frá því að dæmi væru um að einstaklingar hafi farið á eigin vegum í efnaskiptaaðgerð erlendis, leitað sér aðstoðar hér heima síðar og í ljós hafi komið að umbeðin aðgerð hafi ekki verið framkvæmd að sögn Rutar Eiríksdóttur, hjúkrunarfræðings á Klíníkinni í Ármúla.
Ekki vel framkvæmdar aðgerðir
Rut segir ekki rétt að tala um plataðgerðir í þessum tilfellum en ljóst sé að þær hafi ekki verið framkvæmdar nógu vel. „Ég vil taka fram að það hefur alveg verið gerð aðgerð en ekki sú aðgerð sem fólk hefur farið út til að láta gera,“ segir Rut. Tilfellin séu ekki mörg en dæmi sé um að magaermi hafi ekki verið framkvæmd sem skildi.
„Þá er þessi magaermi ekki gerð nægilega þröng. Þannig að þá eru minni líkur á fylgikvillum og fólk finnur að það hefur verið skorið en þyngdartapið og efnaskiptin breytast ekki,“ segir hún. Offita hafi aukist mikið og ekki sé nægilegur stuðningur fyrir einstaklinga með offitu hér á landi og því reyni fólk oft að finna lausnir sjálft. Mikilvægt sé að fólk með offitu fái fræðslu og stuðning.