Fótbolti

Hetja heims­meistaranna fékk hræði­legar fréttir á sínum besta degi á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olga Carmona með heimsbikarinn og gullverðlaunin um hálsinn.
Olga Carmona með heimsbikarinn og gullverðlaunin um hálsinn. Getty/Maddie Meyer

Olga Carmona, fyrirliði spænska kvennalandsliðsins í fótbolta, upplifði örugglega sinn besta dag á fótboltaferlinum í gær. Dagurinn endaði aftur á móti ekki vel.

Carmona skoraði eina marka úrslitaleiks HM og tryggði þjóð sinn heimsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í kvennaflokki. Hún var auk þess kosin besti leikmaður úrslitaleiksins og tók síðan við bikarnum í leikslok.

Eftir leikinn fékk hin 23 ára gamla Carmona aftur á móti skelfilegar fréttir.

Spænska knattspyrnusambandið sagði frá því á Twitter að faðir Carmona hefði dáið í aðdraganda leiksins. Leikmaðurinn fékk aftur á móti ekki fréttirnar fyrr en eftir leikinn.

„Ég veit að þú hefur verið á horfa á mig í kvöld og ert stoltur af mér. Hvíldu í friði pabbi,“ skrifaði Olga Carmona á samfélagsmiðla. Faðir hennar dó á föstudaginn.

„Án þess að vita það þá fékk ég stjörnuna mína fyrir leikinn. Ég veit að þú gafst mér styrk til að afreka eitthvað algjörlega einstakt“

Carmona hafði tekið við fyrirliðabandinu í undanúrslita- og úrslitaleiknum og skoraði sigurmark spænska liðsins í báðum leikjunum en hún spilar sem vinstri bakvörður.

Tvö af þremur landsliðsmörkum hennar á ferlinum komu því í tveimur stærstu leikjum spænska liðsins á heimsmeistaramótinu.

Faðir hennar hafði barist lengi við veikindi en móðir hennar og bræður hennar komu til Ástralíu til að horfa á úrslitaleikinn.

Olga er frá Sevilla á Spáni en gekk til liðs við Real Madrid árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×