Fótbolti

Komnar með fleiri fylgj­endur en karla­lands­liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Áströlsku stelpurnar fagna hér sigri í vítakeppninni á móti Frakklandi.
Áströlsku stelpurnar fagna hér sigri í vítakeppninni á móti Frakklandi. Getty/Bradley Kanaris

Ástralska kvennalandsliðið í fótbolta er komið alla leið í undanúrslit á HM á heimavelli og það er óhætt að segja að öll ástralska þjóðin sé að fagna með þeim.

Ástralía vann Frakkland í vítakeppni í átta liða úrslitum HM og mætir Evrópumeisturum Englands í undanúrslitunum.

Áströlsku stelpurnar eru stórstjörnur í heimalandinu og vinsældir þeirra hafa aldrei verið meiri.

Hvert myndbandið á fætur öðrum sýnir Ástrala fagna saman, hvort sem það er í heimahúsum, á torgum eða jafnvel í flugvélum þar sem flestir farþegar fylgdust með vítakeppninni í beinni.

Nú er svo komið að ástralska kvennalandsliðið, sem kalla sig Matilda’s, eru komnar með fleiri fylgjendur á samfélagsmiðlum en karlalandsliðið sem ber gælunafnið Socceroos.

Nýjustu tölur sýna það að Matildas eru með 492 þúsund fylgjendur á Instagram á sama tíma og karlalandsliðið er bara með 312 þúsund fylgjendur. Bilið er enn að aukast enda áströlsku stelpurnar að spila um verðlaun á heimsmeistaramótinu í þessari viku.

Fylgjendum kvennalandsliðsins hefur fjölgað um hundrað þúsund á síðustu dögum á meðan fylgjendum karlaliðsins hefur aðeins fjölgað um þúsund á sama tíma.

Undanúrslitaleikur Ástralíu og Englands fer fram á miðvikudagsmorguninn klukkan tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×