Fótbolti

Sú hollenska fagnar því að banda­rísku hroka­gikkirnir duttu úr leik á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lineth Beerensteyn á blaðamannafundinum fyrir leik Hollands í átta liða úrslitum.
Lineth Beerensteyn á blaðamannafundinum fyrir leik Hollands í átta liða úrslitum. Getty/Rico Brouwer

Lineth Beerensteyn, framherji hollenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var ekki hrifin af derringnum í bandarísku landsliðskonunum fyrir heimsmeistaramótið í Ástralíu og Nýja Sjálandi.

Bandaríska liðið hefur unnið tvo síðustu heimsmeistaratitla og töluðu leikmenn liðsins um það fyrir mót að vinna þriðja heimsmeistaratitilinn í röð. Þótti sumum eins og þær töldu sig eiga greiða leið í úrslitaleikinn. Hrokinn fór í taugum á mörgum og þar á meðal þeim hollensku.

Bandaríska liðið endaði síðan á að detta út fyrir Svíþjóð í sextán liða úrslitum keppninnar og er því ekki meðal átta bestu þjóðanna á þessu heimsmeistaramóti.

Fyrstu veikleikamerkin sáust í 1-1 jafntefli á móti Hollandi í riðlakeppninni. 

Beerensteyn segist hafa fagnað vel þegar Bandaríkin duttu út. „Já! Bless!“ voru viðbrögð hennar við tíðindunum en hún ræddi málin á blaðamannafundi fyrir leik Hollands í átta liða úrslitum.

Beerensteyn er liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Juventus.

„Ég lít svo á að þú þurfir að sýna eitthvað inn á vellinum áður en þú ferð að nota stór orð og sýna slíkan hroka. Ég ætla ekki að vera ókurteis með því að segja þetta og ég ber enn mikla virðingu fyrir þeim,“ sagði Lineth Beerensteyn.

„Þær eru dottnar úr leik á þessu móti og það er léttir fyrir mig. Þær þurfa að taka þá staðreynd með sér inn í framtíðina,“ sagði Beerensteyn.

„Ekki fara að tala um eitthvað sem er langt í burtu,“ sagði Beerensteyn og vísaði til úrslitaleiksins. 

„Ég vona að þær læri af þessu.“

Holland mætir Spáni í átta liða úrslitunum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×