Fótbolti

At­vinnu­manna­lið samdi við þrettán ára strák

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Da'vian Kimbrough var nákvæmlega þrettán ára, fimm mánaða og þrettán daga í gær.
Da'vian Kimbrough var nákvæmlega þrettán ára, fimm mánaða og þrettán daga í gær. @SacRepublicFC

Bandaríska USL liðið Sacramento Republic samdi í gær við kornungan leikmann og gerði hann um leið að yngsta leikmanni í atvinnumannaliðsíþróttunum í Bandaríkjunum.

Drengurinn heitir Da'vian Kimbrough og er aðeins þrettán ára gamall. Hann er fæddur 18. febrúar 2010.

USL-deildin er næstefsta fótboltadeildin í Bandaríkjunum á eftir MLS.

Í fréttum frá Bandaríkjunum kemur fram að hann sé yngsti leikmaðurinn sem fær atvinnumannasamning í atvinnumannadeildunum þar sem eru meðal annars NFL, NBA, MLB, NHL og WNBA.

Metið áttið áður Maximo Carrizo sem samdi við New York City FC á fjórtán ára afmælisdeginum sínum í febrúar 2022.

Kimbrough var nákvæmlega þrettán ára, fimm mánaða og þrettán daga í gær.

Kimbrough gekk til liðs við unglingaakademíu Sacramento liðsins árið 2021 eftir að hafa slegið í gegn í Bassevelde bikarnum sem er barna og unglingamót. Hann var þá ellefu ára að spila með þrettán ára strákum frá alls staðar að í heiminum.

Kimbrough hjálpaði þá New York Red Bulls að vinna mótið en hann var gestaleikmaður í liðinu og var valinn leikmaður mótsins.

Kimbrough mun sem betur fer ekki hætta námi heldur verður hann í Elk Grover skólanum í Sacramento County.

Sacramento Republic tilkynnti líka að leikmaðurinn muni fá sérstaka æfingar sem taka mið af aldri hans og að læknalið félagsins muni fylgjast vel með honum.

Sacramento liðið er eins og er í efsta sæti Vesturdeildar USL deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×