Fótbolti

Kólumbía braut múrinn mikla og mætir Englandi

Sindri Sverrisson skrifar
Catalina Usme fagnar frábæru marki sínu gegn Jamaíku í dag.
Catalina Usme fagnar frábæru marki sínu gegn Jamaíku í dag. Getty/Robert Cianflone

Jamaíka er úr leik á HM kvenna í fótbolta eftir að hafa fengið á sig aðeins eitt mark á öllu mótinu. Það var annað spútniklið á mótinu, Kólumbía, sem braut múrinn mikla og sló Jamaíku út með 1-0 sigri í 16-liða úrslitum í dag.

Catalina Usme skoraði eina mark leiksins snemma í seinni hálfleik, þegar hún skrúfaði boltann í vinstra hornið eftir langa og stórkostlega sendingu frá Önu Maríu Guzmán af vinstri kantinum.

Jamaíka náði að skapa sér færi til að jafna metin og Jody Brown skallaði í tréverkið af afar stuttu færi eftir aukaspyrnu, auk þess sem Drew Spence skallaði framhjá í frábæru skallafæri á 82. mínútu.

Kólumbía hefði getað gert út um leikinn skömmu síðar þegar Usme átti frábæra sendingu inn í teiginn en Leicy Santos skallaði í stöngina.

Það kom þó ekki að sök því Kólumbíu tókst að halda út og landa sigrinum sem skilar liðinu í 8-liða úrslit í fyrsta sinn í sögunni.

Kólumbía mætir Evrópumeisturum Englands í 8-liða úrslitunum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×