Hópur hermanna tilkynnti það í beinni útsendingu aðfararnótt fimmtudags í síðustu viku að herinn væri búinn að steypa ríkisstjórn landsins af stóli. Hermennirnir sögðu öryggissveitir hafa tekið yfir stofnanir landsins og hvöttu utanaðkomandi aðila til að skipta sér ekki af.
Í grein Bazoum segist hann vera aðeins einn af þeim hundruð borgara sem herforingjastjórnin hafi handtekið ólöglega. Þá varar hann við viðveru Wagner-málaliðahópsins sem fagnaði valdaráninu en hópurinn er nokkuð stórtækur í Vestur-Afríku.
„Þetta valdarán verður ekki réttlætt á nokkurn hátt,“ segir í grein Bazoum. „Ef þeim tekst áætlunarverk sitt mun það hafa skeflilegar afleiðingar fyrir land okkar, heimshluta og allan heiminn.“
Nú hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti kallað eftir því að Bazoum forseti verði látinn laus og að lýðræði verði komið á í landinu á ný.
Herforingjastjórnin hefur nú fellt úr gildi hernaðarsamkomulag milli Níger og Frakklands, fyrrum nýlenduherra, en milli 1000 og 1500 franskir hermenn eru staðsettir í Níger til að berjast gegn íslömskum uppreisnarhópum.