Fótbolti

Markvörður KÍ Klaksvíkur var hættur í fótbolta og vann sem rafvirki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonathan Johansson var hetja KÍ Klaksvíkur gegn Häcken.
Jonathan Johansson var hetja KÍ Klaksvíkur gegn Häcken.

Öllum að óvörum sló KÍ frá Klaksvík Svíþjóðarmeistara Häcken úr leik í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í gær.

Í 3. umferð forkeppninnar mætir KÍ Noregsmeisturum Molde, en sigurinn hefur jafnframt í för með sér að sama hvernig fer þá mun færeyskt lið spila í riðlakeppni einhverrar af Evrópukeppnunum þremur. Ef KÍ tapar gegn Molde fer liðið nefnilega í umspil um sæti í Evrópudeildinni, og ef það einvígi tapast einnig þá fer KÍ beint í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

KÍ vann Häcken í vítaspyrnukeppni, 3-4, eftir 3-3 jafntefli í seinni leiknum í gær. Sænski markvörðurinn Jonathan Johansson var hetja KÍ en hann varði spyrnu Simons Sandberg.

Saga þessa 31 árs markvarðar er ansi merkileg. Hann var nefnilega hættur í fótbolta og samdi bara við KÍ fyrir rúmum mánuði.

Johansson lagði hanskana á hilluna fyrir tveimur árum og byrjaði að vinna sem rafvirki. Í frítíma sínum spilaði hann sem miðvörður í norsku E-deildinni.

En fyrir sex vikum hóaði KÍ í Johansson og nú er hann markvörður hjá liði sem spilar í Evrópukeppni í vetur.

„Það er erfitt að koma þessu í orð. Þetta er það stærsta sem hefur gerst í sögu félagsins og það stærsta sem hefur gerst fyrir mig,“ sagði Johansson. „Fyrir sex vikum spilaði ég ekki fótbolta.“

Sem fyrr er næsta verkefni Johanssons og félaga í KÍ í Meistaradeildinni gegn Molde sem varð norskur meistari á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×