Íslenski boltinn

Dipló Gummi leysti deiluna með óvæntu útspili

Sindri Sverrisson skrifar
Sérfræðingarnir voru ekki sammála um hver hefði verið bestur í sigri Víkinga á ÍBV.
Sérfræðingarnir voru ekki sammála um hver hefði verið bestur í sigri Víkinga á ÍBV. Stöð 2 Sport

„Það er ósætti í þættinum, og búið að vera í allan dag,“ sagði Guðmundur Benediktsson sposkur á svip í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld, þegar kom að því að tilkynna um mann leiksins í stórsigri Víkings gegn ÍBV.

Sérfræðingar Guðmundar, þeir Albert Brynjar Ingason og Lárus Orri Sigurðsson, voru að vanda í góðum gír en síður en svo alltaf sammála.

Albert var harður á því að Pablo Punyed hefði verið bestur, í 6-0 sigri Víkinga, og hafði látið útbúa sérstaka Pablo-klippu úr leiknum máli sínu til stuðnings. Lárus vildi hins vegar velja Færeyinginn Gunnar Vatnhamar og var ekki síður sannfærður um sitt val. En Guðmundur dó ekki ráðalaus.

„Þegar að stefnir í slagsmál í þættinum þá hef ég oddaatkvæði,“ sagði Guðmundur sem kom með óvænt útspil eins og sjá má í klippunni hér að neðan.

Klippa: Stúkan: Deilt um mann leiksins í sigri Víkings

„Ef ég sé Pablo fuðra upp Guðmundur…“ sagði Albert, hræddur um að Guðmundur myndi velja Gunnar.

„Eru einhver fjölskyldutengsl í gangi hérna?“ spurði Lárus og óttaðist að Guðmundur myndi fara eftir því sem Albert mágur hans lagði til.

Guðmundur gerði hins vegar hvorugt.

„Ég er diplómatískur maður. Ég vil leysa mál. Og fyrir mér er það Vestfirðingurinn Matti Villa [sem er maður leiksins]. Þeir fuðra báðir upp og að sjálfsögðu er Matti Villa maður leiksins. Skoraði eitt og lagði upp tvö. Allt í öllu og spilaði allar stöðurnar. Matti fær þetta,“ sagði Guðmundur. Lárus og Albert sættu sig svo sem við það en Albert skaut þó á Guðmund:

„Þegar þú kemur heim geturðu farið í tímaflakkið og skoðað klippuna sem ég setti inn með Pablo.“


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×