Fótbolti

Stuðningsmenn hótuðu að skjóta eigin leikmenn í fæturna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianluca Prestianni varð fyrir árás stuðningsmanna Vélez Sarsfield.
Gianluca Prestianni varð fyrir árás stuðningsmanna Vélez Sarsfield. getty/Rodrigo Valle

Leikmenn argentínska fótboltafélagsins Vélez Sarsfield segja að stuðningsmenn þess hafi setið fyrir þeim og hótað að skjóta þá.

Atvikið átti sér stað þegar leikmenn Vélez voru á heimleið eftir 1-0 tap fyrir Huracán í lokaumferð argentínsku úrvalsdeildarinnar. Talið er að fimm til sex stuðningsmenn liðsins hafi ráðist að fjórum leikmönnum; Gianluca Prestianni, Leonardo Jara, Santiago Castro og Francisco Ortega.

Að sögn Prestiannis réðust stuðningsmennirnir á leikmennina þegar þeir voru á bílastæði.

„Þeir slógu mig tvisvar í andlitið og rifu í jakkann minn. Ég var hræddur og samherjarnir vildu ekki fara heim af ótta við að þeir yrðu eltir,“ sagði Prestianni.

„Þeir sögðu meðal annars við einn þeirra: „Farðu út úr bílnum eða ég skýt þig tvisvar í fæturna.“

Jara hafði sömu sögu að segja, það er að stuðningsmennirnir hafi hótað að skjóta hann í fæturna.

Vélez hefur fordæmt athæfi stuðningsmannanna og líklegt verður að teljast að málið dragi dilk á eftir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×