Fótbolti

„Reyndum að róa þá niður en þeir tóku bara bikarinn“

Aron Guðmundsson skrifar
Hluti af Rey Cup meistaraliði Ascent Soccer
Hluti af Rey Cup meistaraliði Ascent Soccer Vísir/Einar

Það er ó­hætt að segja að lið knatt­spyrnu­akademíu Ascent frá Malaví hafi unnið hug og hjörtu þjóðarinnar á fót­bolta­mótinu Rey Cup um ný­liðna helgi en tveir Ís­lendingar, sem búa í Malaví, ýttu hug­myndinni að komu liðsins, úr vör.

„Það má segja að for­saga málsins sé sú að við erum nokkrar ís­lenskar fjöl­skyldur, sem búum í Malaví og erum á vegum Utan­ríkis­ráðu­neytisins þar. Ráðu­neytið vinnur þróunar­starf í Malaví, er að byggja skóla, spítala og þess háttar og við erum þarna tveir knatt­spyrnu­á­huga­menn sem komumst í kynni við knatt­spyrnu­akademíuna Ascent Soccer.

Lengi hefur okkur langað til að gera eitt­hvað fyrir þessa akademíu. Þegar að Rúrik Gísla­son kom til Malaví á sínum tíma, þá heim­sótti hann knatt­spyrnu­akademíuna og þá hefur sendi­ráðið í Malaví verið að fara með akademíuna héröðin þar og gefa þeim styrk til að finna leik­menn, halda mót og gera eitt og annað.“

Jóhann Bragi FjalldalVísir/Skjáskot

Það var svo í upp­hafi þessa árs sem það kviknaði hug­mynd hjá fé­lögunum tveimur.

„Við förum bara með lið á Rey Cup, hugsuðum við með okkur í sam­floti með að­stand­endum knatt­spyrnu­akademíunnar. Á þeim tíma var þessu bara hent fram og við höfðum eigin­lega enga trú á því að þetta gæti orðið að veru­leika. Svo bara ein­hvern veginn byrjaði boltinn að rúlla.

Við höfðum sam­band við for­ráða­menn Rey Cup og þeir buðu okkur að koma, það kom svo inn fjár­sterkur aðili sem borgaði allt flug fyrir leik­menn og þjálfara akademíunnar, við byrjuðum með hóp­söfnun og það komu inn fyrir tæki sem vildu styrkja okkur. Það voru allir bara svo já­kvæðir í garð þessa verk­efnis að á endanum gekk þetta ein­hvern veginn upp.“

Æfa við frumstæðar aðstæður

Þær fót­bolta­legu að­stæður, sem leik­menn knatt­spyrnu­akademíu Ascent Soccer búa við í Malaví, eru allt aðrar en þær sem leik­menn upp­lifðu hér á landi á Rey Cup.

„Að­stæðurnar í Malaví eru mjög frum­stæðar, maður þarf eigin­lega bara sjá þær með eigin augum til þess að skilja það. Leik­menn æfa jú á grasi, en grasið er með þúfum upp og niður ein­hvern veginn og svo þegar að þeir fara keppa þá eru þeir kannski bara að keppa á moldar­völlum og það gæti verið tré á vinstri kanti.

Okkar leik­menn höfðu aldrei spilað á gervi­grasi fyrir Rey Cup og að­stæðurnar hér eru að­stæður sem leik­mönnum Ascent Soccer dreymir um að æfa og spila við.“

Ó­trú­legir innan sem utan vallar

Það þykir alveg ljóst að þessi reynsla leik­manna Ascent hér á land muni hverfa þeim og skipu­leggj­endum þessarar ferðar, seint úr minni.

„Þetta er búið að vera alveg ó­trú­legt, við erum bara enn að melta þetta því ævin­týrið fyrir þessa ungu stráka byrjaði bara þegar að þeir komu hingað til lands fyrir nokkrum dögum síðan.

Þið hafið séð þessa stráka, þeir eru bara ó­trú­legir innan sem utan vallar. Þeir kvarta ekki yfir neinu og ef þeir eru sparkaðir niður í leik þá standa þeir upp og væla ekki í dómaranum. Þegar að þeir komu til Ís­lands og fóru í fyrsta fjöl­miðla­við­tal sitt, þá vöktu þeir at­hygli af því að þeir voru að koma frá Afríku, koma frá Malaví.

Núna vekja þeir at­hygli af því að þeir eru að spila ein­stakan fót­bolta og eru að standa sig vel. Þeir eru gríðar­lega stoltir af því.“

Jóhann Bragi rifjar þá upp við­tal við Latu Kayria, leik­mann Ascent, sem var tekið fyrir kvöld­fréttir Stöðvar 2 fyrir Rey Cup. Þar sagði Latu:

„Við vonumst til að vinna mótið og fara með bikarinn til Afríku. Við erum full­vissir um að okkur takist það.“

„Við reyndum að róa þá niður en þeir tóku bara bikarinn,“ segir Jóhann Bragi. „Ég trúi þessu varla enn­þá.“

Þurftu ekki að hafa áhyggjur af völlunum

Leik­menn Ascent Soccer komu, sáu og sigruðu í flokki A-liða í 3. flokki karla á Rey Cup. Liðið vann alla leiki sína á mótinu og fékk ekki á sig mark.

„Þetta hefur verið frá­bært,“ segir Emmanuel Cheyo, einn af leik­mönnum Ascent Soccer. „Það hefur verið gaman fyrir okkur að mæta annars konar á­skorun inn á fót­bolta­vellinum. Ís­lensku leik­mennirnir eru stórir og sterkir og því höfum þurft að að­laga okkur til þess að geta spilað okkar leik. Þetta var því virki­lega góð á­skorun fyrir okkur.“

Latu Kayira, liðs­fé­lagi Emmanuel hjá Ascent tekur undir með honum og segir það hafa verið frá­bæra upp­lifun að hafa fengið að spila úr­slita­leik mótsins á Laugar­dals­velli, hvað þá að vinna úr­slita­leikinn sjálfan.

„Við vorum mjög glaðir. Þetta var í fyrsta skipti sem við spiluðum á gras­velli í Evrópu en leikir okkar á Rey Cup höfðu verið að fara fram á gervi­gras­völlum. Við gátum ein­beitt okkur að okkar leik án þess að þurfa að hafa á­hyggjur af vellinum sem við vorum að spila á.“

Og þar snerist at­hyglin að að­stæðunum heima í Malaví. Hvernig eru að­stæðurnar heima fyrir ykkur til þess að æfa og spila fót­bolta?

„Hvað varðar mig sjálfan, þá eru að­stæðurnar hjá liðinu mínu að­eins betri en hjá liðum annarra leik­mannanna í Malaví,“ svarar Latu. „Áður en ég kom til Ascent var ég vanur því að spila á moldar­völlum. 

Hjá Ascent höfum við bæði geta spilað á gras­völlum en einnig stærri völlum og með því náð að þróa okkar leik.“

Hann vildi óska þess að allt ungt knatt­spyrnu­fólk í Malavíu gætu æft og spilað fót­bolta við þannig að­stæður.

„Að­stæðurnar fyrir marga eru því miður ekki nægi­lega góðar og leik­menn þurfa að spila á moldar­völlum. Ég vildi óska þess að ég gæti bætt að­stæðurnar fyrir þau svo að fót­boltinn í Malaví gæti tekið fleiri skref fram á við.“

Hrósa íslensku leikmönnunum

Emmanuel segir dvölina á Ís­landi hafa verið frá­bæra.

„Við höfum kynnst landi og þjóð, séð hafið, farið í Fly Over Iceland og gert margt annað. Þá hefur verið gaman að kynnast nýjum krökkum, mynda ný sam­bönd.“

Og þá ber að hrósa and­stæðingum liðsins frá Ís­landi sem hafa sýnt þeim ein­staka vel­vild og hlýju á mótinu svo eftir er tekið, bæði hjá leik­mönnum Ascent Soccer sem og að­stand­endum akademíunnar.

„Við höfum fundið fyrir góð­mennsku þeirra. Þrátt fyrir að við hefðum borið sigur úr býtum gegn þeim, þá komu leik­menn liðanna, tóku í hendurnar á okkur og þökkuðu okkur fyrir leikinn. Hér eru allir mjög vina­legir og þyrstir í að vita meira um Malaví.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×