Fótbolti

Horfði á mörkin sín og komst svo á toppinn

Sindri Sverrisson skrifar
Sophie Román Haug með boltann eftir að hafa skorað þrennuna gegn Filippseyjum.
Sophie Román Haug með boltann eftir að hafa skorað þrennuna gegn Filippseyjum. Getty/Hannah Peters

Norska landsliðskonan Sophie Román Haug varð í gær ein af markahæstu leikmönnum HM í fótbolta í Eyjaálfu þegar hún skoraði þrennuna sína í 6-0 sigrinum gegn Filippseyjum, sem kom Noregi áfram í 16-liða úrslit.

Haug skoraði mörkin eftir að hafa horft á mörkin sem hún hafði áður skorað fyrir norska landsliðið í stjórnartíð Hege Riise. Hún hefur núna skorað meira en þriðjung marka Noregs undir stjórn Riise, eða 8 af 23 mörkum, og var því áberandi í sérstöku hvatningarmyndbandi sem leikmenn horfðu á fyrir leikinn í gær.

„Þetta var gott myndband sem við fengum að sjá. Við fengum að sjá klippur af því sem við höfum gert áður, og eftir svona innblástursmyndband gátum við tekið með okkur orkuna og góða tilfinningu frá fyrri leikjum,“ sagði Haug við Nettavisen.

Noregur hafði ekki skorað eitt einasta mark í fyrstu tveimur leikjunum á HM, í 1-0 tapinu gegn Nýja-Sjálandi og jafnteflinu við Sviss.

„Við horfðum á mörk sem við höfum skorað til að sjá bókstaflega hvað við getum og styrkja trúna á að við gætum þetta. Við töluðum um að fyrsta markið gæti haft „tómatsósuáhrif“ því við höfðum skapað færi í öllum leikjum. Þetta fór eins og við vonuðumst til,“ sagði Haug.

Haug, sem er 24 ára framherji Roma, hafði skorað fimm mörk í fyrstu níu A-landsleikjum sínum fyrir leikinn í gær. Það gerir 0,56 mörk í leik eða nákvæmlega sama hlutfall og hjá Ödu Hegerberg, stjörnuframherja Noregs, sem skorað hefur 43 mörk í 77 A-landsleikjum.

Eftir þrennuna í gær er Haug hins vegar með 0,8 mörk að meðaltali í leik, og ef horft er til spilaðra mínútna hefur hún skorað á 70 mínútna fresti fyrir Noreg. 

Hún varð í gær ein fjögurra leikmanna sem þá voru markahæstir á HM með þrjú mörk hver, og getur bætt við mörkum í útsláttarkeppninni. Hin japanska Hinata Miyazawa var hins vegar rétt í þessu að komast í efsta sæti markalistans, með fjögur mörk, eftir tvennu í fyrri hálfleik gegn Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×