Fótbolti

Kólumbía í bílstjórasætið eftir glæsilegan sigur á Þjóðverjum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Linda Lizeth Caicedo Alegria kom Kólumbíu yfir í leiknum. 
Linda Lizeth Caicedo Alegria kom Kólumbíu yfir í leiknum.  Vísir/Getty

Kólumbía fór með 2-1 sigur af hólmi þegar liðið mætti Þýskalandi í annarri umferð riðlakeppninnar á heimsmeistaramótinu í fótbolta kvenna í Sydney í Ástralíu í dag. 

Linda Lizeth Caicedo Alegria kom Kólumbíu yfir en Alexandra Popp jafnaði metin fyrir þýska liðið. Caicedo sem er einungis 18 ára gömul leikur með Real Madrid. 

Það var svo vinstri bakvörðurinn Manuela Vanegas sem tryggi Kólumbíu dramatískan sigur með marki sínu eftir hornspyrnu í uppbótartíma leiksins.

Þetta var fyrsta tap Þýskalands í riðlakeppni heimsmeistaramóts í 20 ár og því bæði glæstur og sögulegur sigur hjá Kólumbíu. Kólumbía hefur sex stig á toppi H-riðilsins eftir þennan sigur. 

Fyrr í dag bar Marokkó sigurorð af Suður-Kóreu en þetta var fyrsti sigur Marokkó í sögu mótsins og sigurmark Ibtissam Jraidi í þeim leik var jafnfram fyrsta mark Marokkó í sögu keppninnar. 

Þýskaland og Marokkó eru jöfn í öðru til þriðja sæti riðilsins fyrir lokaumferðina. Suður-Kórea rekur svo lestina í riðlinum án stiga.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×