Fótbolti

Hetja Kólumbíu í nótt sigraðist á krabba­meini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Linda Caicedo fagnar marki sínu með liðsfélaga sínum Leicy Santos.
Linda Caicedo fagnar marki sínu með liðsfélaga sínum Leicy Santos. Getty/James Chance

Kólumbía byrjaði HM kvenna í fótbolta mjög vel eða með 2-0 sigri á Suður-Kóreu í nótt.

Hin átján ára gamla Linda Caicedo skoraði seinna mark kólumbíska liðsins í leiknum en það fyrra kom úr vítaspyrnu.

Markið skoraði táningurinn eftir einstaklingsframtak og eftir það var leikurinn í nokkuð öruggum höndum hjá kólumbíska liðinu.

Hetja Kólumbíu frá því í nótt á sér dramatíska sögu því hún sigraðist á krabbameini sem hún fékk þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul.

Caicedo hefur nú skorað á þremur heimsmeistaramótum á einu ári því hún skoraði líka á HM sautján ára liða í fyrra og HM tuttugu ára lið í fyrra.

Caicedo varð þarna tíunda yngsta konan til að skora á heimsmeistaramóti kvenna eða 18 ára og 153 daga gömul. Það stefndi ekki í það að hún myndi spila á stærsta sviðinu fyrir aðeins nokkrum árum síðan þegar hún barðist við eggjastokkakrabbamein.

„Þá vissi ég ekki hvort gæti nokkurn tímann orðið atvinnumaður vegna allra meðferðanna og aðgerðanna sem ég þurfti að ganga í gegnum,“ sagði Linda Caicedo við FIFA.

„Ég verð alltaf þakklát fyrir það sem gerðist þegar ég var ung. Ég náði fullum bata og hafði stuðning frá fjölskyldu minni. Það sem gerðist hjálpaði mér að vaxa og þroskast. Ég er þakklát og ánægð að vera hér,“ sagði Caicedo.

Hún er nýgengin til liðs við spænska stórliðið Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×