Innlent

Birgitta ætlar aldrei aftur af landi brott: „Fólk þarf að fara að vakna“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birgitta segir fáa vilja ræða þau vandamál sem massatúrismi hafi í för með sér.
Birgitta segir fáa vilja ræða þau vandamál sem massatúrismi hafi í för með sér. Giles Clarke/Getty Images)

Birgitta Jóns­dóttir, fyrr­verandi þing­maður Pírata, er hætt að fljúga og segir það vera sitt fram­lag í bar­áttunni gegn loft­lags­breytingum. Hún segir fáa vilja horfast í augu við að massa­túr­ismi sé vanda­mál og segist ekki eiga eftir að sakna þess að fara til út­landa, ís­lensk náttúra komi þar til bjargar.

„Ég tók á­kvörðun um það í heims­far­aldrinum að hægja veru­lega á mínum utan­lands­ferðum,“ segir Birgitta í sam­tali við Vísi. Hún segist síðast hafa farið á Glaston­bury tón­listar­há­tíðina í fyrra en hafi nú fengið nóg.

„Á­stæðan fyrir því að ég ætla ekki að fljúga tengist á­standinu á jörðinni. Ef maður horfir upp á það dag eftir dag að það er neyðar­á­stand, á sama tíma og það hafa aldrei eins margar flug­vélar verið á lofti, þá er þetta mín ákvörðun. Ef allir gera eitt­hvað, þá getum við kannski bjargað ein­hverju.“

Birgitta segir það hafa tekið á sig að fylgjast með ný­legum breytingum á veður­fari, sem tengist loftlagsbreytingum. Ham­fara­hlýnun í Evrópu nú og langt kulda­skeið á Ís­landi í vetur sýni fram á að veðra­kerfin séu þegar tekin að breytast vegna loft­lags­á­hrifa af völdum mann­kyns.

„Við upp­lifum þetta ekkert mikið hér, en þetta hefur þegar haft á­hrif. Þegar svo er komið sé ég eigin­lega lítinn til­gang í því að mót­mæla. Það er ekki hlustað á mót­mælendur fyrr en það er orðið of seint, þannig það eina sem ég get gert er að breyta minni hegðun.“

Fáir vilji ræða vanda­málið við massa­túr­isma

Birgitta segist vera stór­tæk í sínum á­ætlunum. Skip mengi einnig gríðar­lega mikið og því komi ekki til greina að ferðast með þeim.

Hún segir í gríni að hún hafi stundum velt fyrir sér að ferðast á segl­bát. Þá er hún hætt að kaupa sér föt og segist eiga nóg til af þeim.

Muntu ekkert sakna þess að fara til út­landa?

„Nei. Málið er að ég elska Ís­land. Ég hef búið mjög víða er­lendis og ferðast mikið vegna vinnu. Ég hef aldrei verið túr­isti, það er ekki beint mitt. Hér hef ég allt til alls og okkar stór­brotnu nátturu. En það vilja fáir tala um að stóra vanda­málið sem við erum að glíma við í dag er massa­túr­ismi. Þetta er svo yfir­gengi­legt alls­staðar, ekki bara hér á landi.“

Birgitta segir of margar þjóðir vera orðnar háðar stór­tækri ferða­mennsku. Um sé að ræða at­vinnu­veg sem grafi undan menningu hvers lands fyrir sig.

„Þarna er um á­kveðið menningar­nám að ræða. Þú ferð niður í bæ og þar er allt lokað sem eitt sinn gerði Reykja­vík skemmti­lega. Hvar eru búllurnar okkar, kaffi­húsin og tón­listar­staðirnir? Ég var einu sinni alltaf að skipu­leggja við­burði en nú er enginn staður sem maður getur farið á og gert eitt­hvað ó­keypis, því allir vilja þeir fá fólk. Gras­rótin sem gerir okkur spes á mjög erfitt upp­dráttar.“

Einstaklingar breyti heiminum

Spurð hvort það sé á á­byrgð ein­stak­linga að berjast gegn hnatt­rænni hlýnun en ekki stærri aðila líkt og stór­fyrir­tækja segir Birgitta:

„Það er á á­byrgð beggja. Þegar ég var ung­lingur hætti ég að borða kjöt. Það voru engar græn­metis­ætur til á þessum tíma. Amma og afi héldu að ég myndi deyja. Nú er þetta orðið eðli­legt. Fólk kenndi öðru fólki hvernig það gæti gert þetta. Ein­staklingar breyta heiminum. Hvernig hefðu mál farið í Suður-Afríku ef Nel­son Mand­ela hefði aldrei stigið upp?“

Ein­staklingar geti vissu­lega ekki gert allt rétt en allt sem þeir geri, litlir hlutir, safnist upp.

„En auð­vitað bera stóru aðilarnir mesta á­byrgð. Eins og olíu­fyrir­tækin sem hafa vitað af loft­lags­breytingum í ára­raðir og gas­lýst þá sem hafa varað við þessu. Ég veit að þetta er radikal, en nú eru þessar breytingar farnar að gerast miklu hraðar og fólk þarf að fara að vakna. Það mun enginn bjarga okkur nema við sjálf.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.