Fótbolti

Írsku lands­liðs­konurnar óttuðust um líkama sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Denise O'Sullivan meiddist illa í leiknum á móti Kólumbíu og var flutt á sjúkrahús.
Denise O'Sullivan meiddist illa í leiknum á móti Kólumbíu og var flutt á sjúkrahús. Getty/Stephen McCarthy

Írland og Kólumbía eru á leið á HM kvenna í fótbolta og mættust í vináttulandsleik um helgina. Það þurfti aftur á móti að flauta leikinn af eftir aðeins tuttugu mínútur.

Ástæðan var harður leikur en margar rosalega tæklingar urðu á þessum fyrstu tuttugu mínútur og meðal annars var írska landsliðskonan Denise O'Sullivan flutt á sjúkrahús.

Leikurinn fór fram í Brisbane í Ástralíu þar sem bæði liðin voru mætt þangað. Dómarar og liðin komust að samkomulagi um að hætta leik enda farið að líta út fyrir að margir leikmenn gætu hreinlega misst af HM með sama áframhaldi.

Vera Pauw, þjálfari írska landsliðsins, sagði eftir á að margir leikmanna sinn hafi hreinlega óttast um líkama sína.

„Við óttumst ekki að það sé spilað fast, þú veist það, því við erum sjálfar lið, sem innan reglna leiksins, látum finna fyrir okkur,“ sagði Vera Pauw í útvarpsviðtali í þættinum Off The Ball.

„Leikmennirnir mínir, í fyrsta sinn síðan ég fór að þjálfa þær, voru hræddar, þær óttuðust um líkama sína,“ sagði Pauw.

Kólumbíska knattspyrnusambandið gaf frá sér yfirlýsingu um að það hafi verið írska liðið sem vildi ekki halda áfram leik og leikmenn sínar fylgdu reglum um prúðmannlegan leik.

„Þetta var eitthvað sem ég hef aldrei orðið vitni að á 47 árum mínum í fótbolta, ekki sem leikmaður og ekki sem þjálfari. Þetta byrjaði sem líflegur leikur en svo varð til þetta andrúmsloft þar sem harkan varð allt of mikil,“ sagði Pauw við Sky Sports.

„Svo kom þessi hrikalega tækling á Denise, tækling sem á ekki að sjást í fótbolta og hún fann mikið til. Ég fór til þjálfara Kólumbíu og sagði: Ég þarf þina hjálp, við þurfum að róa þetta niður. Við viljum allar fara á HM,“ sagði Pauw.

Mótherjar Kólumbíu á HM geta farið að kvíða fyrir en Kólumbía er í riðli með Þýskalandi, Marokkó og Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×