Fótbolti

FIFA gefur miða á HM kvenna í fótbolta vegna slakrar miðasölu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe var stjarna síðustu heimsmeistarakeppni og var þá bæði markahæst og valin best auk þess að vinna titilinn sjálfan.
Megan Rapinoe var stjarna síðustu heimsmeistarakeppni og var þá bæði markahæst og valin best auk þess að vinna titilinn sjálfan. Getty/ Jose Breton/

Heimsmeistaramót kvenna í fótbolta fer fram í tveimur löndum að þessu sinni eða Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Það er mikill munur á áhuga á mótinu eftir því hvort leikirnir fara fram í Ástralíu eða í Nýja-Sjálandi.

Fréttir af frábærri miðasölu eiga því bara við um Ástralíu en langflestir af þeim milljónum miðum sem hafa selst eru á leiki sem fara fram í Ástralíu.

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur nú ákveðið að gefa miða á leiki á HM sem fara fram í Nýja-Sjálandi.

Alls mun FIFA gefa um tuttugu þúsund miða á leiki í Auckland, Hamilton, Wellington og Dunedin. Sambandið gefur miðana í gegnum Xero, styrktaraðila á mótinu, sem mun færa Nýsjálendingum fimm þúsund fría miða í hverri borg.

Það er vissulega furðulegt að á meðan annar gestgjafinn kemur með fréttir af því að það sé uppselt á 80 þúsund manna völl og að salan gangi frábærlega þá er hinn í miklum vandræðum með að selja sína miða.

Auðvitað hefur hefð og geta landsliðanna mikið að segja. Áströlsku stelpurnar ætla sér stóra hluti á meðan landslið Nýja-Sjálands hefur enn ekki náð að vinna leik í fimm heimsmeistarakeppnum sínum.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur einnig áhyggjur því hún er að hvetja landa sína að kaupa miða. Ardern gerði það í færslu á Instagram reikningi sínum.

Nýsjálendingar spila sinn fyrsta leik á móti Noregi 20. júlí næstkomandi en sá leikur fer fram í Auckland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×