Fótbolti

Dagný og Glódís Perla búnar að fá málverkin sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir með viðurkenningar sínar.
Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir með viðurkenningar sínar. KSÍ

Tvær landsliðskonur fengu afhent málverk eftir Tolla í landsliðsverkefninu sem stendur nú yfir hjá kvennalandsliðinu.

Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir hafa báðar náð hundrað landsleikjum fyrir A-landslið Íslands og afhenti Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, þeim málverk eftir Tolla í viðurkenningarskyni fyrir áfangann á hóteli íslenska liðsins.

Málverkin eru bæði landslagsmálverk af hinni fallegu náttúru Íslands. Glódís Perla fékk málverk af drottningu öræfanna, Herðubreið en Dagný fékk málverk af Langjökli við Hvítárvatn.

Liðið er nú að undirbúa sig fyrir komandi vináttuleiki gegn Finnlandi og Austurríki en leikurinn á móti Finnum fer fram á Laugardalsvellinum á morgun.

Samkvæmt reglugerð KSÍ um landsliðs- og heiðursmerki skal veita þeim leikmönnum sem ná hundrað A-landsleikjum heiðursviðurkenningu. Hefð er fyrir því að veita viðurkenninguna á fyrsta ársþingi KSÍ eftir að hundraðasti leikurinn er spilaður. Ef leikmenn komast ekki á ársþingið er viðurkenningin veitt við fyrsta tækifæri eftir það.

Landsliðskonur höfðu kvartað yfir seinagangi við veitingu slíkra viðurkenninga en Vanda hefur passað upp á þessi mál vel síðan.

Elísa Viðarsdóttir fékk líka viðurkenningu en hún hefur spilað fimmtíu landsleiki fyrir A-landslið Íslands. Af því tilefni afhenti Vanda henni styttu eftir Steinunni Þórarinsdóttur.

Dagný Brynjarsdóttir lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2010 á Algarve Cup gegn Bandaríkjunum og þann hundraðasta lék hún árið 2022 í undankeppni HM 2023 gegn Hvíta-Rússlandi. Dagný hefur leikið 113 A-landsleiki og skorað í þeim 38 mörk.

Glódís Perla Viggósdóttir lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2012 í vináttuleik gegn Skotlandi og þann hundraðasta lék hún árið 2022 í undankeppni HM 2023 gegn Hvíta-Rússlandi. Glódís hefur leikið 112 A-landsleiki og skorað í þeim níu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×