Innlent

Gosið í takt við fyrri gos og fer ró­lega af stað

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Magnús segir að ekki sé um stórgos að ræða. 
Magnús segir að ekki sé um stórgos að ræða.  Arnar/Rax

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, var gestur í Reykjavík síðdegis í dag. Hann segir í samtali við þáttastjórnendur að eldgosið sem nú er hafið sé í takt við hin gosin og að ekki sé um stórgos að ræða. 

„Það sem við sjáum er að þetta er stutt gossprunga og afllítið gos og mjög lítið, enn sem komið er,“ segir Magnús í Reykjavík síðdegis. Hann segir gossprunguna um 200 metra langa, en setur fyrirvara á þær upplýsingar þar sem svæðið hafði ekki verið skoðað þegar þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis náðu tali af honum.

„Við verðum að bíða og sjá hvernig gosið þróast en þetta virðist vera í takt við fyrsta gosið að því leyti að þetta fer mjög rólega af stað,“ segir hann og vísar til eldgossins í Fagradalsfjalli sem hófst í mars 2021. „Við erum vissulega ekki að sjá neitt stórgos fara af stað.“

Magnús segir hraunið koma til með að renna í suðurátt og því langt frá innviðum. Hann segir eldgosið „mjög í takt við hin gosin“ sem hafa orðið á svæðinu síðustu tvö ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×