Innlent

„Skrýtið að þetta skuli ekki vera komið upp“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Landsmenn fylgjast vel með þróun mála og veittu því athygli í gær þegar reykur sást stíga frá hrauninu í Geldingadölum.
Landsmenn fylgjast vel með þróun mála og veittu því athygli í gær þegar reykur sást stíga frá hrauninu í Geldingadölum. Vísir/Vilhelm

„Þetta hefur aðeins minnkað; aðeins fækkað skjálftunum og þeir eru allir minni,“ segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um þróun skjálftavirkninnar á Reykjanesskaga.

Um 630 skjálftar hafa mælst frá miðnætti en allir í minni kantinum og enginn nálægt því eins stór eins og skjálftinn sem reið yfir klukkan 22:22 í gærkvöldi.

Gosáhugamenn veittu því athygli í gærkvöldi að á vefmyndavélum sást rjúka úr hrauninu í Geldingadölum. Böðvar segir þetta ekki nýtt; hraunið sé enn heitt og gas að stíga frá því og þá virðist sem losun frá því hafi aukist eitthvað eftir að skjálftahrinan sem nú stendur yfir hófst.

„Það er enn gert ráð fyrir gosi,“ segir Böðvar, varkár í svörum, spurður að því hvort staðan sé ekki enn sú sama; að menn geri ráð fyrir gosi á næstu klukkustundum eða dögum. Það sé hins vegar ómögulegt að segja fyrir um hversu biðin verður löng.

„Það er svolítið skrýtið að þetta skuli ekki vera komið upp miðað við hvað þetta er nálægt skorpunni,“ segir hann en eins og áður hefur verið greint frá benda nýjustu mælingar til þess að kvika kraumi nú á um 500 metra dýpi.

Starfsmenn Veðurstofunnar munu funda um stöðu mála á eftir en engir aðrir fundir né yfirflug eru á dagskrá í dag, enn sem komið er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×