Fótbolti

Agu­ero byrjaður að feta nýjar slóðir

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sergio Aguero hyggur á frama í pókernum.
Sergio Aguero hyggur á frama í pókernum. Vísir/Getty

Sergio Aguero lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2021 eftir að hafa greinst með hjartagalla. Hann virðist nú ætla að skapa sér nafn á öðrum vettvangi.

Sergio Aguero var frábær framherji og er goðsögn hjá stuðningsmönnum Manchester City eftir að hafa skorað markið dramatíska gegn QPR sem tryggði félaginu Englandsmeistaratitilinn árið 2012.

Hann gekk til liðs við Barcelona frá City árið 2021 en þurfti að hætta knattspyrnuiðkun skömmu síðar vegna hjartavandamála. Síðan þá hefur ekki mikið farið fyrir Aguero sem var þó nokkuð áberandi þegar Argentína tryggði sér heimsmeistaratitilinn í desember og sást þá meðal annars fagna niðri á velli með fyrrum félögum sínum í landsliðinu.

Nú virðist Aguero hins vegar ætla að hasla sér völl á nýjum vettvangi. Hann hefur skráð sig til leiks á heimsmeistaramótinu í póker sem fram fer í Vegas en hann hefur þénað tæpa milljón á annars frekar stuttum pókerferli sínum.

Þrátt fyrir að hafa skartað hettupeysu og stórum svörtum sólgleraugum í Vegas voru kunnugir ekki lengi að átta sig um hvern var að ræða. Aguero vann sér inn þátttökurétt á öðrum degi heimsmeistaramótsins í Vegas og á enn möguleika á að vinna stóra vinninginn, 12 milljónir dollara sem gerir hvorki meira né minna en rúmlega 1,6 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×