Fótbolti

Fékk rautt spjald fyrir að pissa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rautt spjald á loft í fótboltaleik en myndin tengist fréttinni ekki beint.
Rautt spjald á loft í fótboltaleik en myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Athena

Argentínski knattspyrnumaðurinn Axel Leonel Ovejero fékk rauða spjaldið á dögunum en undir nokkuð sérstökum aðstæðum.

Ovejero hafði komið inn á sem varamaður í leik með Argentino de Merlo þegar 21 mínúta var eftir af leiknum.

Ovejero hafði augljóslega ekki passað upp á það að fara á klósettið í hálfleik því aðeins ellefu mínútum eftir að hann kom inn á völlinn þá þurfti hann svo mikið að létta á sér.

Ovejero fór út að hliðarlínunni, girti niður um sig og byrjaði að pissa á grasið.

Felipe Viola, dómari leiksins, var ekki í neinum vafa eftir að hafa fengið upplýsingar frá aðstoðardómara sínum um hvað Ovejero var að gera.

Dómarinn gekk að Ovejero og lyfti rauða spjaldinu.

Axel Leonel Ovejero er 21 árs gamall, fæddur á þeim sögulega degi 11. september 2001.

Hann er leikmaður Club Atlético Banfield II en félagið lánaði hann til Argentino de Merlo út þetta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×