Innlent

Ferða­menn á svæðinu mesta á­hyggju­efnið

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ferðamenn á leið að sjá eldgosið í  Meradölum við Fagradalsfjall 2022.
Ferðamenn á leið að sjá eldgosið í Meradölum við Fagradalsfjall 2022. vísir/vilhelm

„Við ýtum bara á takka sem heitir copy/paste,“ segir Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í samtali við Vísi um viðbrögð sveitarinnar við jarðhræringum á Reykjanesskaga. Fjöldi ferðamanna hefur verið á svæðinu frá síðasta eldgosi, sem Bogi segir mesta áhyggjuefnið.

Skjálftahrina hófst fyrir um sólarhring við Fagradalsfjall. Yfir 1700 skjálftar hafa mælst og fimm yfir 4 að stærð, sá stærsti mældist 4,8 að stærð klukkan 8:21 í morgun. 

„Við erum svo sem undirbúnir fyrir þetta eins og venjulega þannig við erum með allt klárt. Það breytti í raun engri rútínu hjá okkur að þetta hætti. Núna snýr þetta bara að símtölum og fundarhöldum,“ segir Bogi.

Hann mikilvægt að björgunarsveitir fari ekki af stað „nema að það sé eitthvað í gangi,“ til að forðast ringulreið.

„Við förum bara í okkar eftirlitsstöður, treystum á okkar fólk í þessu. Það vinna allir á sömu blaðsíðu og við bíðum bara eftir frekari upplýsingum.“

Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns.Vísir/Egill

Bogi segir aðal-áhyggjuefnið vera ferðamenn á svæðinu. 200-500 manns hafi verið á svæðinu á dag frá því að eldgosinu í Meradölum lauk.

„Það hefur farið upp í 800 og þegar þetta fréttist mun traffíkin aukast eftir því. Svo er fólkið sem ætlar að ná fyrstu myndinni, það er ekkert sem segir okkur hvar þetta kemur.“

Fólk er hvatt til að halda sig frá svæðinu en ekkert liggur fyrir um lokun á svæðinu.

„Eins og er, er þetta bara gönguleið,“ segir Bogi sem er sjálfur staddur á N1 mótinu fyrir norðan og hefur því ekki fundið fyrir skjálftum á svæðinu. Bæjarstjóri Grindavíkurbæjar segir rólegt yfir bænum enda séu bæjarbúar öllu vanir.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×