Innlent

Stað­fest að maðurinn lést af völdum höfuð­höggs

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Líkamsárás sem leiddi til þess að litháískur maður á þrítugsaldri lést átti sér stað á skemmtistaðnum Lúx.
Líkamsárás sem leiddi til þess að litháískur maður á þrítugsaldri lést átti sér stað á skemmtistaðnum Lúx. Vísir/Vilhelm

Banamein karlmanns á þrítugsaldri sem lést í kjölfar líkamsárásar á skemmtistaðnum Lúx í Austurstræti fyrir tæpum tveimur vikum, var eitt höfuðhögg. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar Höfuðborgarsvæðinu. 

Maðurinn hét Karolis Zelenkauskas og var 25 ára gamall litáískur ríkisborgari. Hann hafði verið búsettur hér á landi um nokkurra mánaða skeið.

Rætt var við Grím í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær um stöðuna á manndrápsmálunum þremur sem lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar um þessar mundir. 

Lögregla hafði áður gefið út að manndrápsmálið á Lúx væri ólíkt hinum málunum. Í gær staðfesti Grímur að það væri vegna þess að maðurinn lést eftir að hafa hlotið eitt höfuðhögg.

„Bráðabirgðaniðurstaða úr krufningu liggur fyrir, sú niðurstaða leiðir í ljós að hann lést af völdum höfuðhöggs.“

Höfuðhöggs í eintölu?

„Já.“

Grímur segir mál af þessu tagi, þar sem maður deyr eftir aðeins eitt högg mjög sjaldgæf. Í fljótu bragði muni hann eftir tveimur málum sem komu upp með tiltölulega skömmu millibili fyrir nærri því 20 árum.

Grímur Grímsson staðfestir að maðurinn hafi látist af völdum höfuðhöggs.Vísir/Arnar

Maðurinn, Íslendingur á þrítugsaldri, sem grunaður er um að hafa orðið manninum að bana var sleppt úr haldi í síðustu viku. 

„Ég ítreka það sem hefur komið fram í tilkynning, að við teljum ekki að það sé ástæða til að halda þeim sem grunaður er um þennan verknað í gæsluvarðhaldi,“ segir Grímur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×