Fótbolti

Þrettán ára stelpa spilaði fyrir HM-lands­lið Suður Afríku eftir skróp leik­manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mamello Makhabane í leik með landsliði Suður-Afríku á síðasta heimsmeistaramóti.
Mamello Makhabane í leik með landsliði Suður-Afríku á síðasta heimsmeistaramóti. Getty/Tim Clayton

Suður Afríka er á leiðinni á HM kvenna í fótbolta en það er sannkallað ófremdarástand í gangi milli leikmanna liðsins og knattspyrnusambandsins.

Deilur um laun og önnur mikilvæg atriði í kringum umgjörð landsliðsins náðu hámarki í gær þegar landsliðið átti að spila síðasta undirbúningsleik fyrir heimsmeistaramótið.

Leikmenn landsliðsins ákváðu að mótmæla stöðunni með því að skrópa í leikinn á móti Botsvana í gær.

Forráðamenn suður-afríska knattspyrnusambandsins náðu þó að hóa saman í lið en það þýddi að einn leikmaður þess var þrettán ára stúlka. Leikmennirnir komur allir úr félögum af svæðinu.

Knattspyrnusamband Suður-Afríku þurfti að seinka leiknum um klukkutíma á meðan safnað var í lið.

Það þarf ekki að koma á óvart að landslið Suður-Afríku tapaði þessum leik 5-0 eftir að hafa verið 4-0 undir í hálfleik.

Leikmenn landsliðsins mættu ekki á völlinn fyrr en í hálfleik en létu þá sjá sig á áhorfendastæðunum. Þær eru mjög ósáttar með léleg laun og dapran aðbúnað liðsins.

Suður-Afríka er í G- riðli á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en fyrsti leikur liðins er á móti Svíþjóð 23. júlí næstkomandi. Ítalía og Argentína eru hin liðin í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×