Fótbolti

Banda­rísku fót­bolta­stelpurnar fá verð­laun fyrir jafn­réttis­bar­áttu sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe og Alex Morgan eru leiðtogar bandaríska kvennalandsliðið og hafa líka gert mikið fyrir baráttuna utan vallar.
Megan Rapinoe og Alex Morgan eru leiðtogar bandaríska kvennalandsliðið og hafa líka gert mikið fyrir baráttuna utan vallar. Getty/Mike Ehrmann

Bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta er að hefja titilvörn sína á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í næsta mánuði en það hefur mikið breyst síðan þær unnu heimsmeistaratitilinn sumarið 2019.

Bandaríska liðið fór, eftir heimsmeistaratitil sinn, á fullt í baráttu sinni fyrir að fá jafnmikið borgað og leikmenn karlalandsliðsins. Karlarnir voru ekki nálægt því að ná sama árangri og margfaldir meistarar kvennaliðsins en fengu samt miklu meiri umbun hjá sambandinu.

Eftir þriggja ára baráttu náðist loksins sátt í fyrra og núna fá landsliðskonurnar það sama og karlarnir. Þær höfðuu málsókn gegn sambandinu en það náðist síðan sátt utan réttarsalarins.

Forráðamenn ESPYS verðlaunanna ætla nú að heiðra landsliðskonurnar fyrir þessa hugrökku baráttu sína fyrir jafnrétti en þær sem munu auðvitað græða mest á þessu eru landsliðskonur framtíðarinnar.

ESPYS hefur ákveðið að bandarísku fótboltastelpurnar fá Arthur Ashe verðlaunin fyrir þessa jafnréttisbaráttu sína.

Á sama tíma hefur pressan aukist á Alþjóðasambandið, FIFA, að jafna muninn hjá sér. Verðlaunféð hefur hækkað mjög mikið milli heimsmeistaramóta hjá konunum en þær eru samt enn mjög mjög langt á eftir körlunum.

Það er samt engin spurning um það að barátta og sigur bandarísku landsliðsleikmannanna á óréttlætinu hjá sínu eigin knattspyrnusambandi hefur án efa lagt grunninn að frekari sigrum í jafnréttisbaráttu knattspyrnukvenna út um allan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×