Fótbolti

Craig Brown látinn 82 ára að aldri

Siggeir Ævarsson skrifar
Brown stjórnaði skoska landsliðinu í yfir 70 leikjum á tímabilinu 1993-2001, og kom liðinu bæði í lokakeppni EM 1996 og HM 1998.
Brown stjórnaði skoska landsliðinu í yfir 70 leikjum á tímabilinu 1993-2001, og kom liðinu bæði í lokakeppni EM 1996 og HM 1998. Vísir/Getty

Craig Brown, fyrrum þjálfari skoska landsliðsins í knattspyrnu, er látinn 82 ára að aldri.  Enginn þjálfari í sögu liðsins hefur stýrt því í jafn mörgum leikjum, en alls lék liðið 71 leik undir hans stjórn og hann er síðasti þjálfarinn sem kom liðinu í lokakeppni HM.

Brown kom fyrst inn í þjálfarateymi landsliðsins 1986, þegar Alex Ferguson sem þá var þjálfari Aberdeen og landsliðsins, hringdi í hann og bað hann að ganga til liðs við þjálfarateymið. Brown var einnig aðstoðarþjálfari Andy Roxburgh hjá landsliðinu og saman komu þeir liðinu í lokakeppni HM 1990 og EM 1992.

Ferguson og Brown var vel til vina en vinskapur þeirra náði allt aftur til 6. áratugarins, þegar þeir spiluðu saman í skólabolta, þar sem Brown var fyrirliði. 

„Þegar mér var sýndur sá heiður að stýra Skotlandi í lokakeppni HM í Mexíkó þá var einn maður sem ég varð að taka með mér, vegna mannkosta hans og þekkingu á fótbolta, það var Craig.“ - sagði Ferguson í yfirlýsingu í dag og bætti við að Brown hefði verið „algjörlega dásamlegur maður.“

Síðasti þjálfarinn til að koma Skotlandi á HM

Brown tók svo við landsliðinu sem aðalþjálfari 1993 og kom því í lokakeppni Evrópumótsins 1996 og í lokakeppni heimsmeistaramótsins 1998, en síðan þá hefur enginn þjálfari liðsins náð að koma liðinu aftur í lokakeppni HM. 

Brown lét af störfum hjá landsliðinu 2001 eftir að hafa mistekist að koma liðinu í lokakeppni HM. Hann átti eftir að þjálfara Preston, Motherwell og Aberdeen eftir það en settist í helgan stein að mestu 2013 en sinnti áfram stjórnarstörfum.

Skotar minnast Brown með hlýju á samfélagsmiðlum, enda sannkölluð goðsögn í skoskum fótbolta sem kvaddi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×